138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er búið að snúa þessum hlutum dálítið mikið á hvolf þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talar um það sem sérstaka atlögu að þinginu þegar það gerist að reynt er að verja þann heilaga rétt þingmanna að fá að taka til máls. Fyrir liggur að fjöldi þingmanna óskaði eftir því að fá að ræða hér um fundarstjórn forseta og hæstv. forseti kom í veg fyrir það. Það er alveg rétt að hæstv. forseti sá að sér, hún skynjaði að umræðan áðan gaf fullt tilefni til þess að hæstv. forseti ætti fund með þingflokksformönnum til þess að fara yfir möguleikann á því að breyta dagskránni vegna þess að hún er ekki í samræmi við það tilefni sem fengist hefur í dag með þeim upplýsingum sem komið hafa fram varðandi skattamálin. Uppi eru áform um gífurlega skattlagningu, verið er að véla um þessi mál í reykfylltum bakherbergjum ríkisstjórnarinnar. Það má greinilega ekki neitt spyrjast út í þessum efnum. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir að þessi mál fái eðlilega, efnislega meðhöndlun núna á þessu stigi.

Það sem vakti fyrir okkur, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, með því (Forseti hringir.) að taka til máls var auðvitað að knýja á um að þessi mál yrðu tekin á dagskrá. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti hefur skynjað þetta og þess vegna er þetta fráleitt að tala um að verið sé að gera atlögu að þinginu þegar reynt er að verja heilagan rétt þingmanna til þess að fá að taka til máls með eðlilegum hætti.