138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns get ég verið sammála því að margt mætti vera miklu skilvirkara hér. Eitt skulum við þó ekki afnema og það er að þingmenn fái að tala þegar þeir biðja um það og nýta sinn rétt. Við skulum ekki afnema það, virðulegi forseti. Ég ætla hv. þingmanni ekki að vera þeirrar skoðunar en það hefði mátt misskilja orð hans og ég veit það út af frammíköllum hans að hann var alls ekki að fara þar.

Stóra málið er þetta: Það er fráleitt að hafa dagskrána eins og hún er í dag miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir og við þurfum að breyta henni. Svo því sé til haga haldið er ég hjartanlega sammála þeim fjölmörgu sem hér hafa komið fram og hrósa hæstv. forseta fyrir að bregðast svona skjótt við, það er til mikillar fyrirmyndar. Síðan skulum við sjá efndir málsins og ég trúi því og treysti að við ræðum það sem skiptir máli, með fullri virðingu fyrir þeim málum sem eru á dagskrá.