138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:50]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu þótt deila megi um að hægt sé að auka aflaheimildir. Ég leyfi mér að benda á hvað gera má við þessar aflaheimildir ef þær verða veittar. Það liggur í hlutarins eðli miðað við skattstefnu ríkisstjórnarinnar að allar auknar aflaheimildir verði þá seldar gegn gjaldi til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð. Í nýframkomnu frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er verið að verðleggja kílóið af skötusel á 120 kr. Tillaga Hreyfingarinnar í efnahags- og skattanefnd er að allar aflaheimildir sem afhentar verða skuli seldar á 50 kr. kílóið, þeir sem ekki vilja taka við þeim gegn því gjaldi hafna þeim þá bara alfarið og öðrum verður leyft að bjóða í þær. Þetta gæti þýtt tekjur fyrir ríkið upp á um 25 milljarða og veitir ekki af. Við verðum að hafa í huga að leigugjald á hvert kíló af þorski í dag er 230 kr., þannig að 50 kr. á kíló þykir mér hóflegt gjald. Þetta mundi í framtíðinni leiða til eðlilegrar verðmyndunar á auðlindinni sem ekki er vanþörf á því að hér er verið að afhenda auðlindir og hefur verið gert áratugum saman endurgjaldslaust af hálfu pólitísks arms LÍÚ. Ég tel að brýn þörf sé á að þar verði breyting á.

Það er eðlilegt, finnst mér, að Sjálfstæðisflokkurinn taki þessar hugmyndir inn í sína efnahagsstefnu, því að þarna er kjörin leið til þess að lækka skatta, eða alla vega að hækka þá minna en efni standa til.