138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[15:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Í þessari umræðu kemur skýrt fram hjá öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er. Hann stendur nú undir líklega meira en 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Hann er jafnframt sá grunnur sem við byggjum okkar samfélag á, þessi auðlind sem við eigum í hafinu. Það er því mikilvægt að við umgöngumst hana af ábyrgð og varkárni en einnig að við beitum öllum brögðum til þess að nýta hana sem best og virðisaukinn verði sem mestur.

Ég vil nefna tvennt. Við þurfum að huga að þeim afla sem veiddur er, að virðisaukinn hér innan lands verði sem allra mestur og að þær aflaheimildir sem gefnar eru út innan ársins séu nýttar á þessu ári. Þessi atriði eru nú þegar í frumvarpsformi hér fyrir þinginu.

Hitt er hvort fara eigi í að auka aflaheimildir eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lagði áherslu á. Þá verðum við að huga að því í fyrsta lagi að við göngum ekki á stofninn og lútum bæði innlendri ráðgjöf í þeim efnum samkvæmt lögum en einnig alþjóðlegum samningum og stuðlum. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að ef við göngum meira á stofninn getum við búist við því að þurfa að minnka álagið á veiðarnar á næsta ári í viðkomandi stofni. Það er talað um að nú sé brýnna en nokkru sinni fyrr að veita meiri aflaheimildir í tiltekna fisktegund og ef við förum út í það verðum við líka að gera okkur grein fyrir því að það getur haft áhrif á næsta ári. Við megum aldrei ganga svo langt að við ógnum sjálfbærni fiskstofnsins.

Ég þakka fyrir þessa umræðu, frú forseti, og það verður áfram unnið að þessu. Fljótlega kemur frumvarp fyrir hv. sjávarútvegsnefnd og Alþingi um sjávarútvegsmál þar sem (Forseti hringir.) gefst rými fyrir fleiri þætti inn í þá umræðu.