138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

lax- og silungsveiði.

165. mál
[15:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að frumvarpið sem við ræðum hér er í raun tilteknar leiðréttingar sem á þeim ágætu lax- og silungsveiðilögum sem tóku gildi um mitt ár 2006. Engu að síður er um að ræða mikilvægar leiðréttingar sem ástæða er til þess að gera á þessum lögum og ég tek undir það með hæstv. ráðherra.

Ég tek líka undir með hæstv. ráðherra um að ástæða er til þess að vekja athygli á þeirri ágætu greinargerð eða athugasemdum sem fylgja frumvarpinu við einstakar greinar sem eru fróðlegar bæði í sögulegu tilliti og eins til að varpa ljósi á þennan lagabálk sem lax- og silungsveiðilögin eru. Mér finnst sérstök ástæða til þess að vekja athygli á 2. mgr. í athugasemdunum þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta, og hefst nú skjallbandalag okkar hæstv. ráðherra:

„Eigi er langt síðan lax- og silungsveiðilög, nr. 61 14. júní 2006, öðluðust gildi. Hin nýju lög voru lengi í smíðum og“ — og ég undirstrika — „þykja hið ágætasta lagaverk.“

Undir þetta vil ég eindregið taka og tel raunar að lax- og silungsveiðilögin hafi í meginatriðum reynst prýðilega og verið prýðilegur grundvöllur fyrir þá mikilvægu starfsemi sem lax- og silungsveiði er í landinu. Gleymum því ekki að lax- og silungsveiðin eru mjög mikil búdrýgindi, ekki bara fyrir einstaka bændur og einstök héruð heldur landið í heild. Við vitum að með skynsamlegri nýtingu á laxveiðiám og veiðivötnum og með ágætri uppbyggingu hefur tekist að auka mjög verðmæti þessarar atvinnugreinar. Í einstökum héruðum skiptir lax- og silungsveiði í ám og vötnum mjög miklu máli fyrir tekjur á þessum svæðum og hægt væri að taka mörg dæmi um það. Á sínum tíma lét Veiðimálastofnun útbúa sérstaka skýrslu eða athugun á því hvert verðmætið af þessum nytjum væri. Það voru ótrúlegar tölur sem ég þori ekki að fara með eftir minni en sýna hins vegar að þetta er gífurlega verðmæt og þýðingarmikil atvinnustarfsemi.

Það er rétt að það var frekar fyrir mistök en nokkuð annað að þannig var gengið frá þessum lögum á sínum tíma að ákveðin óvissa varð um hvernig farið yrði með atkvæðisrétt eigenda svokallaðra eyðijarða sem áttu veiðirétt. Það er auðvitað eðlilegt að reynt sé að laga þetta. Mér er kunnugt um að unnið hefur verið að þessum málum í ágætri sátt við hlunnindabændur og aðra sem málið varðar og ég tel að um þetta mál ætti að geta tekist ágæt samstaða.

Í öðru lagi er hér um að ræða ákvæði sem felur í sér að gera skuli skýrari reglur um ábyrgð þeirra sem hefja framkvæmdir í veiðivötnum án tilskilinna leyfa. Það má segja sem svo að þarna sé verið að árétta þann vilja að vitaskuld eigi menn sem hefja þessar framkvæmdir án þess að hafa aflað tilskilinna leyfa að bera fulla ábyrgð á því. Við vitum að þó að menn hefji þessar framkvæmdir kannski í athugunarleysi getur það verið afdrifaríkt og haft áhrif á búsvæði vatnafiska sem er nauðsynlegt fyrir okkur að fara mjög gætilega um. Þess vegna er eðlilegt að aflað sé nauðsynlegra heimilda hjá þeim sem málið varðar og þekkja til og hafa þekkingu til þess að skera úr um það áður en slíkar framkvæmdir hefjast.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Það er rétt að í þessu felast engar grundvallarbreytingar á lögunum sjálfum enda, svo ég ítreki það sem fram kemur í athugasemdunum, eru þau hið ágætasta lagaverk. Þó eru þau ekki gallalaus og þess vegna er nauðsynlegt að gera á þeim þessar breytingar sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir.