138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 185, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990 um innflutning á dýrum, með síðari breytingum. Með frumvarpi þessu eru áformaðar breytingar á lögum um innflutning á dýrum í því skyni að auðvelda og hraða erfðaframförum í svínarækt.

Tildrög frumvarpsins eru að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skipaði sérfræðinganefnd árið 2008 til þess að gera tillögur um leiðir til að efla og auka hagkvæmni í svínarækt, m.a. með tilliti til hugsanlegs innflutnings á erfðaefni, með það að leiðarljósi að búgreinin verði sem best arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar og matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu nægilega tryggð.

Nefndin hefur gert að tillögu sinni að heimilað verði að flytja frosið svínasæði beint inn á bú hér á landi að uppfylltum nánar tilteknum kröfum um heilbrigði í útflutningslandi, útflutningsstöð og í því búi sem nýtir sæðið. Þá er einnig gert ráð fyrir einangrunartíma hér á landi svo ganga megi úr skugga um að viðsjárverðar breytingar hafi ekki orðið á svínum í útflutningslandi, þ.e. þaðan sem sæðið er fengið. Með frumvarpi þessu er farið að tillögu nefndarinnar.

Þá felur frumvarpið í sér að ákvörðunarvald um hvort heimila skuli innflutning er lagt til Matvælastofnunar en þá ákvörðun má síðan bera undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til úrskurðar.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjals með því sem hefur m.a. að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Ég legg auk þess til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.

Varðandi umsögn fjármálaráðuneytisins um kostnað, verði frumvarpið óbreytt að lögum, verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er ljóst að þarna eru miklir hagsmunir í húfi fyrir svínabændur okkar og svínakjötsframleiðslu hér á landi og þess vegna er talið mikilvægt að þetta frumvarp sé flutt.