138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skýrir náttúrlega hversu hæstv. utanríkisráðherra er stundum glaðbeittur, hann nam hin glöðu vísindi í því ágæta landi Bretlandi. En ég var út af fyrir sig ekkert að furða mig á því að hann tæki til máls um þetta mál, ég fagna því þvert á móti að hann skyldi gera það. Ég var aðeins að velta því fyrir mér hvað hefði valdið því að hann gat staðist þá freistingu hér áðan að ræða um lax- og silungsveiði. Það held ég satt að segja að sé í fyrsta skipti í 18 ára þingsögu hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) að hann hafi staðist þessa freistingu og sýnir náttúrlega hvað hann er farinn að láta mikið á móti sér í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann er í núna.

Að öðru leyti vil ég segja að allt sem hæstv. ráðherra sagði um þetta mál, sem er auðvitað alvarlegt mál og mjög mikilvægt, eins og ég reyndi að undirstrika áðan, er rétt. Þetta mál lætur kannski ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en það er hins vegar þýðingarmikið. Það er á vissan hátt prinsippmál. Ég tel að það hafi verið mjög vel undirbúið. Við hæstv. ráðherra erum algerlega sammála um að hluti af framförum í íslenskum landbúnaði stafar af kynbótum og þar hefur verið staðið býsna vel að mjög mörgum málum. Við sjáum bara þær framfarir sem orðið hafa í búfjárrækt. Það mætti nefna fjölmargt í því sambandi. Ég ætla ekki að hætta mér út á þann hála ís að telja eitthvað upp þarna og gleyma því sem gæti skipt máli í þeirri upptalningu. Ég vil einfaldlega segja að við höfum náð framförum í landbúnaði með kynbótum með því að standa að þeim með skynsamlegum hætti.

Svínaræktin er mjög gott dæmi um þegar menn hafa náð meiri kjötframleiðslu miðað við fóðureiningu en áður var og það byggir á þessum kynbótum. Fyrir svínabændum vakir auðvitað fyrst og fremst að auka þessar framfarir enn frekar með því að heimila þennan innflutning til að geta kynbætt stofninn og ná þannig meiri afrakstri út úr búum sínum til hagsbóta fyrir alla, þar með talið neytendur. Þetta er stórmál, það skiptir máli en þetta er líka mjög áhugavert og nauðsynlegt að menn velti því fyrir sér til að mynda í nefndinni með þeim sérfræðingum sem við getum kallað til á okkar fund til að komast til botns í þessu og skilja þetta mál til hlítar.