138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágætt frumvarp eins langt og það nær og ástæða til að fagna því að á meðal allra þeirra stofa sem hafa verið stofnaðar á undanförnum árum sé loksins unnið að því að koma á Íslandsstofu, stofu allra stofa.

Mig langar til að spyrja að tvennu: Stendur til að efla einhvern þátt þessa starfs eða er bara verið að reyna að nýta þá fjármuni sem þegar eru fyrir hendi? Ég er sérstaklega að fiska eftir svörum varðandi Fjárfestingarstofu, þar finnast mér ekki vinna margir miðað við umfang verkefnisins. Stendur til að samfara þessu verði einhver breyting á stefnumörkun hvað þetta varðar þannig að einhverjir þættir þessa mikilvæga starfs verði efldir? Ég er einkum og sér í lagi að velta því fyrir mér hvernig á að laða að erlenda fjárfestingu.

Svo er ég með aðra spurningu sem ég ætla að geyma fyrir annan lið andsvara minna.