138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir jákvætt viðhorf í garð frumvarpsins. Hv. þingmaður segist styðja meginmarkmið frumvarpsins. Það er auðvitað alveg ljóst að í þeirri stöðu sem við erum nú í verður ekki um það að ræða að fjárveitingar verði stórauknar til þessa málaflokks. En auðvitað er stefnt að því að þegar Ísland vinnur sig út úr þeim erfiðleikum sem það er í núna muni menn veita aukna fjármuni til þessa málaflokks í gegnum Íslandsstofu.

Þegar hv. þingmaður spyr um það hvaða fjárheimildir muni nákvæmlega falla undir verkefnin sem kunna að silast inn fyrir vébönd Íslandsstofu, þá vil ég svara því með þeim hætti að ákveðin verkefni sem tengjast ýmsum þeim verkum sem hér eru undir í frumvarpinu eru enn hjá öðrum stofnunum og ætlunin er sú að gera sérstaka samninga um útfærslu þeirra og framkvæmd innan Íslandsstofu, hugsanlega, og m.a. við Ferðamálastofu. (Forseti hringir.) Ákveðnar viðræður eru í gangi þar og einhvers staðar í þessu er einmitt talað um þjónustusamninga sem tengjast þeim verkum.