138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Bara til að ítreka þá styð ég meginmarkmiðið, það að nauðsynlegt sé að stilla saman strengi. Ég ætla að áskilja mér rétt til að fara betur yfir frumvarpið áður en ég lýsi yfir miklum stuðningi við það en þetta markmið get ég heils hugar tekið undir.

Varðandi spurningu mína og kannski það sem ég sagði áðan með harmóníkuna. Er þarna um að ræða fyrst og síðast að verið sé að færa til fólk og verkefni frá einni stofnun til annarrar, á milli ráðuneyta, þvert á ráðuneyti eða sameina á einn stað? Hvernig er þetta hugsað? Nú er ég t.d. að hugsa um allt starfsfólkið sem er að vinna í þessu úti um öll ráðuneyti. Færist það til? Á að fjölga í sendiráðum þegar lokað verður hjá Ferðamálastofu í Frankfurt og Kaupmannahöfn? Munu þeir starfsmenn sem nú eru hjá Ferðamálastofu færast inn í sendiráðin? Er þetta aukning í utanríkisþjónustunni? Það eru þessi atriði sem ég er að velta fyrir mér hvernig munu verða útfærð.