138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir í skriflegu svari við fyrirspurn sem lögð var fram undir lok síðasta kjörtímabils af þáverandi þingmanni Sturlu Böðvarssyni að aldrei hefur jafnmikið fjármagn verið lagt af hálfu hins opinbera til ferðaþjónustunnar eins og eftir árið 2007. Þetta liggur fyrir í þingskjölum og hefur ekki verið vefengt. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn og síðustu ríkisstjórnir hafa lagt mikið kapp á það að beina fjárveitingum til ferðaþjónustunnar. Við sjáum hvernig svörunin hefur verið. Á sama tíma og efnahagslægð hefur gengið yfir heiminn þá hefur nánast eins og hendi sé veifað ferðaþjónusta á ýmsum stöðum, eins og við Miðjarðarhafið, farið verulega niður. Hvað hefur gerst hér? Hér hefur hún verið í sögulegu hámarki þrátt fyrir kreppuna þannig að ég tel að það sé að verulegu leyti að þakka auðvitað frumkvæði og þrótti greinarinnar en ekki síður því að umgjörðin er orðin sterkari og betri heldur en hún var (Forseti hringir.) og þetta er hluti af því að bæta hana.