138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki á því að við höfum sýnt nógu mikinn metnað í ferðamálunum. Ferðamálin hafa gengið vel en það er vegna þess að fyrirtækin hafa verið að vinna algert þrekvirki og ég get bara nefnt að það eru þrjár atvinnugreinar sem afla okkur gjaldeyris, það er sjávarútvegur stóriðja og ferðamál. Hvernig er þetta varðandi sjávarútveginn og stóriðjuna? Það eru heilu ráðuneytin sem meira eða minna einbeita sér að þeim málaflokkum og heilu rannsóknarstofnanirnar og stofnanir sem eru á áætlanagerð. En í ferðamálunum, hvað er þar? Einn starfsmaður í iðnaðarráðuneytinu. Reyndar er til Ferðamálastofa, en það er líka Hafrannsóknastofnun og Orkustofnun í hinum greinunum. Við erum með allt of veika umgjörð, virðulegi forseti. Það er það sem við eigum að einbeita okkur að varðandi metnaðinn. En það er rétt, við erum búin að setja af stað markaðsstarf og það er mjög gott en það þarf miklu, miklu meira.

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra af því að það á að fara í ímyndarsókn og markaðssetningu og hér er talað um orkumál og fjárfestingar og ferðaþjónustuna, af hverju er ekkert um sjávarútveg? Það er ekki eitt einasta orð um sjávarútveg. Vildi sjávarútvegurinn ekki vera með?