138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að við búum ekki nándar nærri nógu vel að ýmsum af þeim greinum sem maður getur kallað sólrisugreinar, t.d. ferðaþjónustu, ýmsu sem tengist hugbúnaðargerð og ýmsum öðrum nýjum greinum, sé miðað við þessar hefðbundnu greinar eins og sjávarútveg og landbúnað. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Á sínum tíma var talið upp í þinginu að landbúnaðurinn, sem er allra góðra gjalda verður, nyti þá þjónustu 14 rannsóknarstofnana. Það er engin rannsóknastofnun fyrir ferðaþjónustuna og það er mjög miður. Það eru að vísu fleiri starfsmenn en þessi eini sem hv. þingmaður taldi upp en þetta er eitt af því sem menn þurfa líka að taka á til framtíðar. Það skiptir máli.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um sjávarútveginn þá er svo að eitt hefur alltaf verið ankeri í sókn okkar erlendis og í því að bæta orðspor okkar og ímynd. Það er íslenskur sjávarútvegur og tærleiki hans og hann verður það áfram.