138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að við erum sammála um að við þurfum að gera betur varðandi það að byggja betri og sterkari umgerð í kringum ferðaþjónustuna og það er við stjórnvöld að sakast í því algerlega. Það er ekkert við núverandi stjórnvöld að sakast. Það er við miklu fleiri aðila að sakast í gegnum árin. Við höfum verið alveg ótrúlega sofandi í þessum málaflokki.

Varðandi sjávarútveginn erum við að selja fiskinn okkar svolítið mikið á sama grunni og við erum að selja okkur sem ferðamannaland, þ.e. náttúran, hreinleikinn og þessi sjálfbærni. Ég velti því fyrir mér, af hverju er þá ekki sjávarútvegurinn með í Íslandsstofunni, af hverju ekki? Var það ekki skoðað eða vildi sjávarútvegurinn ekki vera með í þessu og ekki heldur landbúnaðurinn? Við vorum með átak í gangi um tíma sem var reyndar umdeilt að vissu leyti, þegar verið var að selja íslenskar landbúnaðarafurðir erlendis en ég velti þessu fyrir mér, af hverju erum við að taka nokkrar greinar en skiljum eftir það sem er svolítið hrópandi að ætti að vera það líka?