138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég er hlynnt þessu máli sem hér liggur á borði okkur, þ.e. að stofna Íslandsstofu. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Að öllu öðru óbreyttu mun ég styðja það. Innihald þess er að það á að nýta fjármagn betur og skýra verkaskiptingu betur og efla samhæfingu og þjónustuna. Þetta hljómar því allt mjög vel.

En það er ýmislegt sem ég velti fyrir mér varðandi þetta mál. Áðan tókum við hæstv. utanríkisráðherra smáumræðu um þær greinar sem eiga að falla undir frumvarpið. Eins og ég skil þetta á þetta að vera samstarfsvettvangur — það kemur fram í 2. gr. — fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnuaðgerðir til að efla ímynd og orðspor Íslands. Þetta er allt gott og vel. Það á að veita alþjóðaþjónustu ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir útflutningi vöru og þjónustu. Þarna staldra ég strax við, virðulegur forseti, greiða fyrir útflutningi á vöru og þjónustu. Mér heyrðist á hæstv. utanríkisráðherra að sjávarútvegurinn væri þá þarna inni og landbúnaðurinn líka af því að þetta hefði tilheyrt Útflutningsráði og færðist þá bara yfir. Þess sér hvergi stað í málinu þegar maður les það, hvergi og ekki í greinargerðinni heldur. En gott og vel, þá er það þarna inni.

Í c-lið kemur fram að það eigi að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi. Það á einnig að upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands. Ég held að það sé mjög brýnt mál í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Í e-lið er talað um að styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis, menning erlendis er þarna tilgreind sérstaklega. Þegar maður les þetta finnst manni svo hrópandi að hvergi sé minnst á sjávarútveginn og landbúnaðinn.

Í 3. gr. er fjallað um hverjir eigi að vera í stjórninni. Þá fer maður líka að velta fyrir sér hvar þessar stóru greinar séu í því sambandi, t.d. sjávarútvegurinn. Þarna á utanríkisráðherra að skipa fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu, og hvaðan koma þeir? Jú, einn frá Samtökum atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar. Þarna kallar líka á mann aftur, af hverju er sjávarútvegurinn ekki þarna með? Ég velti þessari hrópandi fjarveru virkilega fyrir mér.

Virðulegur forseti. Ég hef líka áhyggjur af sjávarútveginum vegna frétta sem bárust af málum í fyrra. Þá lentum við í því að íslenskur þorskur var tekinn úr hillum svissneskra stórmarkaða. Menn muna kannski eftir þessu. Það var m.a. fjallað um þetta í leiðara Morgunblaðsins man ég og þetta skeði bara eins og hendi væri veifað, eftir áralangt markaðsstarf. Þarna hvarf dýrmætur markaður. Í Sviss er borgað frekar vel fyrir fisk en þarna var íslenskum fiski hent út. Af hverju var það? Það var vegna þess að fiskurinn hafði enga vottun um að hann væri veiddur með sjálfbærum hætti og þetta íslenska sölufyrirtæki sem þarna hafði átt í hlut hafði reynt að þrýsta á íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðila um árabil og fá vottun á vörunni en án árangurs. Það var sem sagt skýringin á þessu. Ég fór á sínum tíma að skoða aðeins þessi vottunarmál af því það að hafa vottaða vöru er ímyndarmál. Það er meiri og minni krafa um það. Þessu hefur sjávarútvegurinn á Íslandi gert sér grein fyrir.

Við getum farið tvær leiðir í þessu. Við getum tekið upp alþjóðlega vottun sem önnur lönd hafa tekið upp, sum en ekki öll, sem er svokölluð MSC-vottun, þ.e. Marine Stewartship Council, það er líka til Friends of the Sea og það eru til ýmsar svona vottanir. Eða að við getum komið okkur upp okkar eigin vottun, íslenskri vottun, og það er í rauninni sú leið sem íslensk stjórnvöld ákváðu að fara í einhverju samráði við sjávarútveginn.

Ég hef svolitlar efasemdir um þetta, virðulegi forseti. En ástæða þess að íslenski sjávarútvegurinn valdi þá leið var að m.a. að það voru vissar efasemdir um MSC-merkið af því að menn töldu að umhverfisverndarsamtök hefðu of mikil áhrif á það merki. Nú hefur verið útbúið íslenskt merki á íslenskan fisk til að geta haldið mörkuðum af því að menn eru hræddir um að í framtíðinni verði meiri þrýstingur á að fá vottaða vöru. Það er búið að kynna þetta merki, það var kynnt í Kópavoginum á stórri sjávarútvegsráðstefnu þar án þess að það væri komin nein vottun á bak við, það var bara útlitið sem var kynnt. Ég hafði reyndar miklar efasemdir um að það væri verið að kynna merki án þess að geta notað það. Ég vil draga þetta sérstaklega fram, virðulegur forseti, af því að kannski mun Íslandsstofa geta komið að þessu máli af því að einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að þetta sé ekki í alveg nógu góðum farvegi. Það er búið að bíða mjög lengi eftir þessu íslenska merki og það er alveg hugsanlegt að það sé rangt hjá okkur að setja upp sérstakt íslenskt merki fyrir sjávarafurðir okkar sem við viljum selja erlendis. Þetta þori ég að segja þó að sjávarútvegurinn sjálfur hafi frekar verið á þeirri skoðun. Ég vil benda á að nágrannalönd okkar hafi farið aðra leið. Það eru fyrirtæki á Norðurlöndunum sem ákváðu að bæta samkeppnisstöðu sína með því að byggja ekki upp eigin vottun, eigið umhverfismerki, heldur hafa þau tekið upp MSC þannig að mér finnst þetta umhugsunarvert. Þess vegna er ég að höggva svolítið í þetta. Er sjávarútvegurinn með í Íslandsstofu af því að það á að skoða ímynd og kynningarstarf á vörum sem við viljum flytja út?

Ég vil spyrja aðeins út í 4. gr. frumvarpsins. Þar stendur:

„Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn Íslandsstofu og ræður starfsfólk.“

Reyndar kemur hvergi fram hvað þetta á að vera margt starfsfólk en látum það nú vera og þar stendur einnig:

„Stjórn Íslandsstofu ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra aðila sem leita eftir þjónustu Íslandsstofu.“

Af hverju er þetta að mestu leyti? Á þetta ekki að standa alveg undir sér ef menn eru að selja út þjónustu?

Svo langar mig líka að spyrja út í 5 gr., um tekjur Íslandsstofu. Þar eru fimm liðir, markaðsgjaldið 0,05%, framlag á fjárlögum o.s.frv. en í 5. lið kemur fram:

„Sérstök framlög og aðrar tekjur. Íslandsstofu ber að stofna til samstarfs við þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta og skal ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi til verkefna af þeim toga.“

Ég staldra aðeins við þessa tölu, 14%. Þarna er eins og sé verið að eyrnamerkja algerlega fast hluta af markaðsgjaldinu, eins og ég skil það. Af hverju er þetta eyrnamerkt svona fast? Er einhver söguleg skýring á bak við það?

Síðan vil ég líka grípa niður á bls. 3, í athugasemd við lagafrumvarpið. Þá kemur fram varðandi ferðamálin að það verður lögbundið hlutverk Íslandsstofu, það var ekki lítið hlutverk, að laða til landsins erlenda ferðamenn. Til að sinna verkefnum sínum skal Íslandsstofa byggja starf sitt á bestu fáanlegu fagþekkingu. Hér vil ég minna á að það liggur mál fyrir þinginu sem ég er 1. flutningsmaður að og flutningsmenn eru úr öllum flokkum, mál sem er um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu. Ég held að það sé mjög brýnt að við aukum fagþekkingu okkar varðandi ferðaþjónustuna. Það vantar svo mikla stefnumótun varðandi ferðaþjónustuna að ég vona að landnýtingaráætlun fari í gang sem fyrst og Íslandsstofa geti þá notið góðs af henni og undirstriki það að við erum að selja Ísland. Það sem við höfum verið að reyna að selja núna um langt árabil í ferðaþjónustu er náttúra Íslands. Rannsóknir sýna að 76% þeirra sem koma hingað koma vegna náttúrunnar þannig að þessi markaðssetning hefur tekist. Við þurfum virkilega að vanda okkur í náttúruvernd og umhverfismálum á Íslandi til að halda dampi bæði varðandi ferðaþjónustuna og líka varðandi sölu á afurðum okkar á erlendum vettvangi, bæði sjávarútvegsafurðum og landbúnaðarafurðum.

Að endingu vil ég líka spyrja út í 2. gr. en þar kemur fram að loka eigi skrifstofum ferðamála í Frankfurt og Kaupmannahöfn en ekki í New York. Ég velti fyrir mér, virðulegur forseti, hvort hæstv. utanríkisráðherra geti svarað því af hverju við lokum á tveimur stöðum en ekki öllum. Það má vera að það sé einhver eðlileg skýring á því en það kemur a.m.k. ekki fram í greinargerðinni.

Að þessu sögðu er ég ánægð með þetta frumvarp og tel að það sé til bóta. Mér finnst vera ákveðin nýsköpun í því, það er verið að hugsa hlutina upp á nýtt, sameina kraftana. Ég vil undirstrika að við þurfum virkilega að vanda okkur í ferðaþjónustunni, greinin er að vaxa og það gengur vel en að mínu mati verða stjórnvöld að bæta sig varðandi allt utanumhald og allan stuðning gagnvart greininni og einnig þarf að bæta alla áætlanagerð varðandi hana. En ég lýsi mig samþykka þessu frumvarpi nema eitthvað mikið komi upp á sem breytir þeirri afstöðu en ég held að þetta sé gott mál, virðulegi forseti.