138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:32]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Öndvert við síðasta ræðumann er ég ekki kominn í ræðustól til að lýsa fyrir fram stuðningi við þetta frumvarp. Ég er hingað kominn til að lýsa því yfir að frumvarpið vekur hjá mér fleiri spurningar en svör. Mér finnst eins og öllum öðrum það satt sem einu sinni var kveðið, að orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur, og sjálfsagt verkefni allra Íslendinga er að bera orðstír þjóðar sinnar sem víðast. Til þess höfum við margar leiðir, til að mynda rekum við hér utanríkisþjónustu, sem ekki er beinlínis ódýrt fyrirtæki og á ekki aðeins að halda orðspori Íslands á lofti, heldur einnig hagsmunum landsins á erlendri grund og enn fremur að stuðla að aukningu ferðamanna, greiða fyrir viðskiptum o.s.frv. Ef marka má það sem kom fram í innblásinni framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra lítur nú út fyrir að til standi að taka það litla bíslag sem heitir Útflutningsráð, endurnýta efnið þaðan og smíða hátimbraða stofu, Íslandsstofu, með engum aukatilkostnaði, heldur verði þetta eins og í ævintýrunum, að efniviðurinn margfaldist og dugi til að reisa þessa hátimbruðu byggingu. Burt séð frá nafninu, það má svo sem einu gilda hvað nýjar stofnanir í okkar eigu heita, en þetta Íslandsstofu-nafn finnst mér einstaklega illa til fundið. Stolt Íslands hingað til hefur ekki verið stofur sem eru nýtilkomið fyrirbæri á vegum þeirrar millistéttar sem byrjaði að þróast hér á 20. öld.

Íslenska stofan er náttúrlega baðstofa, en ekki stássstofa. En samkvæmt því sem ég heyrði hæstv. utanríkisráðherra lýsa á þessi stofa ekki að vera venjuleg stássstofa, þetta á að vera einhver mikilvirkasta spunavél í eigu ríkisins til að spinna nýja eða sterkari og fegurri og girnilegri ímynd en Ísland hefur nokkurn tímann séð. Ímynd Íslands er nokkuð sem ekki verður búið til í spunaverksmiðju, hversu vel hugsuð og hagkvæm sem hún kann að vera í rekstri. Ímynd Íslands er sú mynd sem þjóðin sjálf geislar frá sér, með menningu sinni, með þjóðfélagsgerð sinni, mannúð, réttlæti og með því að kunna að taka vel á móti gestum þannig að þeim líði vel og tali vel um land og þjóð þegar þeir eru komnir á nýjan leik til síns heima. Spunaverkstæði hafa í nútímanum aðallega þann tilgang að róa þann sem kaupir þjónustu þeirra, að sannfæra þann aðila um að hann sé að verja fé sínu vel og skynsamlega. Aðalframleiðsluvara spunastofanna er ljósprentaðir bæklingar og síðan fundir og ferðalög fyrir starfsmenn. Nú kann vel að vera að þetta nýjasta hugarfóstur okkar, Íslandsstofan, verði spunastofa af aldeilis nýrri tegund. En ég hef enga sannfæringu fyrir því að svo verði. Þetta á ekki að leiða til neins tilkostnaðar umfram þann kostnað sem þegar liggur í Útflutningsráði og öðrum verkefnum, en á að vera margfalt mikilvirkara.

Ég er afskaplega vantrúaður á að ef boðið er upp á eitthvað sem ekki á að kosta nokkurn skapaðan hlut sé það þess virði að bera sig eftir því. Ég vona heitt og innilega að mér skjátlist í þessu tilviki og að ef þessi nýja Íslandsstofa fær að rísa í okkar þegar hátimbraða stjórnkerfi sanni hún tilverurétt sinn með tímanum. En ímyndarsköpunarauglýsingamennska mun ekki skila okkur fram á veginn í þeim greinum sem þurfa aðallega á stuðningi að halda. Þá á ég við ferðaþjónustuna sem þarf fyrst og fremst á skýrri stefnumörkun að halda og stuðningi til að framfylgja þeirri stefnumörkun. Hér á þinginu hefur komið til umræðu áætlun um hálendi landsins og hvernig það nýtist sem best til að taka á móti öllum þeim ferðamannafjölda sem hingað kemur væntanlega. Það er áætlanagerð af því tagi sem skiptir sköpum því að það er alveg sama hvað við setjum upp mikilvirk tæki til að auglýsa landið, ef landið og þjóðin rísa ekki undir þeim væntingum sem við viljum vekja og vekjum með öðrum bjargar auglýsingamennska okkur ekki frá afleiðingum þess.

Ég mun fylgjast af miklum áhuga með því hvernig þetta frumvarp þróast í meðferð utanríkismálanefndar og þingsins og taka afstöðu til þess á seinni stigum málsins.