138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo að það sé sagt var aldrei af minni hálfu sagt hér að ég styddi ekki stefnu Sjálfstæðisflokksins. En það er nokkuð ljóst að ég styð ekki stefnu Samfylkingarinnar. Þó að sjálfstæðismenn komi að einhverju verki og vinni einhver verk er ekki þar með sagt að þó að ég sé sjálfstæðismaður og hlynnt stefnu Sjálfstæðisflokksins þurfi ég að gera þær skoðanir að mínum. Það er bara ekki þannig.

Frú forseti. Fátt er mér fjær en að vilja draga úr eflingu atvinnulífs en ég tel ekki að það frumvarp sem hér liggur frammi eins og ég les það stuðli að eflingu atvinnulífs eins og við stöndum frammi fyrir akkúrat í augnablikinu. (Utanrrh.: En atvinnulífið telur það.) (Iðnrh.: Kallar á það.)

Frú forseti. Ég tala hvorki fyrir hönd atvinnulífsins né Samfylkingar né annarra sjálfstæðismanna, ég tala hér sem þingmaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ég sé ekki hvernig þetta frumvarp hér og nú mun efla atvinnulífið. Ég sé það bara ekki. Það kann að vera að einhverjir aðrir sjái það. Ég hefði kosið að menn hefðu frekar eflt þær stöðvar sem til eru en að búa til eina nýja, eina stóra sem á síðan að stýra og stjórna. Það er bara í mínum huga, frú forseti, ekki rétta leiðin.