138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur mestmegnis verið mjög jákvæð. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa lagt hér gott til málanna og ég vil líka þakka þeim hinum sem hafa bent á það sem hugsanlega mætti betur fara. Af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar í dag fannst mér kannski merkilegast að hlusta á margt sem hv. þm. Þráinn Bertelsson sagði. Hann virtist álíta, sem bendir til þess að mér hafi mistekist í framsögu minni, að ég væri hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að leggja til að búin yrði til einhvers konar auglýsingaskrifstofa eða spunabatterí fyrir Ísland út á við.

Ég tel ekki hægt að leggja það út af því frumvarpi sem hér liggur fyrir eða heldur orðum mínum. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að hvorki er hægt að búa til ímynd Íslands né annarra á auglýsingastofum. Það er hugsanlega hægt að búa til skammvinna ímynd stjórnmálamanns eða stjórnmálaflokks á spunastofu en ef grunnurinn er ekki fyrir hendi verður slíkur spuni alltaf mjög skammvinnur. Ekki er hægt að búa til ímynd um Ísland sem byggist á spuna, hvorki af stjórnvöldum né atvinnulífi. Ímyndin þarf að vera sönn og ég tel reyndar að það sé æskilegt fyrir Ísland að hún sé ekki einsleit, en ég tel að hún þurfi samt að vera nokkuð samhljóma ef við erum að vinna að því að ná tilteknu sameiginlegu marki. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að orðsporið verður ekki gripið úr lausu lofti, það er birtingarmynd þess sem við erum og þess sem við gerum.

En ég held því fram að ímynd og orðspor verði til í hvert eitt sinn sem við eigum samskipti eða viðskipti og ég held að sterk ímynd skapist fyrst og fremst þegar upplifun þeirra sem skipta við okkur er jákvæð og endurspeglar kjarna þess sem kannski gerir okkur að þjóð. En mér fannst nefnilega margt í máli hv. þingmanns tengjast þessari skoðun minni, hv. þingmaður gerði t.d. nokkuð að umræðuefni menningararfleifðina og menningu Íslendinga. Ég er honum algjörlega sammála um það, og ég sagði það reyndar í framsögu minni, að það væri grunnstoðin. Ég held að sá veruleiki sem við höfum búið okkur til sem sjálfstæð þjóð með sjálfstæða menningu, með einstaka menningu, með einstakt mál, sé grunnstoðin undir allri okkar sókn að því að skapa og breyta eða setja upp jákvæðari ímynd. Og hvers vegna viljum við gera það? Jú, vegna þess að við teljum að orðspor Íslands hafi beðið hnekki og kannski sérstaklega núna, eða einungis að sjálfsögðu, í kjölfar þeirra miklu tíðinda sem urðu þegar fjármálakerfið hrundi. Þá hefur það verið almenn útbreidd skoðun að það hafi orðið til þess að verulegir brestir komust í ímynd okkar sem við höfðum byggt upp á grundvelli menningar, náttúru og hreinnar vöru um áratugaskeið.

Þess vegna komust menn að þeirri niðurstöðu að það væri mjög nauðsynlegt við þessar aðstæður að samhæfa þó það atgervi sem er að finna í ýmsum stofnunum í atvinnulífinu, í sameiginlegum stofnunum atvinnulífs og stjórnvalda, eins og Útflutningsráð hefur t.d. verið, til þess að reyna að fá sem mest út úr því fjármagni sem menn geta í gegnum ýmsa farvegi veitt í þetta. Það er þess vegna sem menn fara þessa leið. Ekki er um það að ræða að menn ætli að fara að kosta eða kaupa einhvern dýran spuna innan lands eða útlendis. Þá hefðu menn einfaldlega farið þá leið að ráða einhverja góða auglýsingastofu og láta hana sjá um það. Svo einfalt er það. En auglýsingastofan sem auglýsir Ísland er hvergi til en hún er þó til í mörgum hlutum hér út um allt samfélagið.

Hv. þingmaður kallaði hér fram í „kvikmyndir“. Kvikmyndir eru eitt af því sem hefur borið hróður Íslands mjög vítt um heimsbyggðina. Bókmenntir okkar — af því hv. þingmaður hefur núna og reyndar oft áður lýst ákveðnum efasemdum um það að utanríkisþjónustan standi undir þeim skyldum sem það fjármagn sem til hennar er varið kallar eftir, þá get ég þess t.d., sem ég hugsa að komi hv. þingmanni á óvart, og mér á óvart þegar ég komst að raun um það, að utanríkisráðuneytið kemur með einhverjum hætti að hundruðum menningarkynninga erlendis á hverju einasta ári. Þetta er allt partur í púsluspilinu og hver lítil flís býr að lokum til heillega mynd.

Þetta vildi ég segja af því ég var hv. þingmanni ekki sammála. En ég skildi hvað lá að baki og er hv. þingmanni þakklátur fyrir að hann skildi frumvarpið að því marki að hann tók ekki svo til orða að menn væru að búa til eitthvað með engu fjármagni, heldur orðaði hann þannig að ekki væri verið að kosta meiru fé til heildarmálaflokksins. Það er rétt hjá hv. þingmanni.

Þó er það þannig að ég tel að Útflutningsráð hafi staðið sig mjög vel. Mín reynsla af samstarfi við það sem iðnaðarráðherra var á köflum frábær. Þeim var t.d., eins og ég nefndi hér í framsögu minni, falið það verkefni að koma Íslandi á framfæri sem heppilegum stað til þess að reisa gagnaver. Ég er sannfærður um það að sú vinna sem þeir unnu ákaflega faglega muni leiða til þess að innan áratugar þá verði hér nokkur gagnaver. Og ég er líka sannfærður um að það verður að nokkuð gildum þætti í atvinnulífi Íslendinga. Ég gæti nefnt fleira. Hv. þingmaður nefndi kvikmyndir hér í frammíkalli áðan. Þegar ég var iðnaðarráðherra lagði ég fram frumvarp sem jók styrki til kvikmyndagerðar töluvert. Frumkvæðið að því, af því ég hef viðurkennt það hér fyrr í dag, ég fæ mjög sjaldan mjög góðar hugmyndir, en er flestum mönnum fremri að nýta annarra manna hugmyndir, þrýstingurinn á það kom frá greininni sjálfri, en uppleggið sem ég fékk sem leiddi til þess að mér tókst að sannfæra ríkisstjórnina, það var ekki auðunnið verk, kom frá Útflutningsráði. Þeir lögðu gögnin upp í hendurnar á mér og sýndu mér fram á hvernig þetta var í öðrum löndum, hvernig væri að breytast þar og þar með samkeppnisstaða okkar.

Ég mundi telja bara svona hérna „på stående fod“, eins og maður segir á góðri íslensku, að þau verkefni sem núna eru í deiglu sem mætti kalla umtalsverðar erlendar fjárfestingar í nýiðnaði, sem eru í deiglu og biðstöðu vegna efnahagsástandsins, megi rekja til Útflutningsráðs. Því segi ég þetta til þess að sýna fram á það eða freista þess að innan þeirrar stofnunar, sem er eins konar blanda af ríkisstofnun og á vegum atvinnulífsins, þar er til mikil reynsla. Þar er til mikil þekking á því hvernig á að koma málstað atvinnugreina eða Íslands á framfæri. Og ég dyl engan þess að það sem ég sé eftirsóknarverðast við frumvarpið, er sá háttur sem við gætum hugsanlega í gegnum það notað til þess að beita þessu atgervi, þessari þekkingu og reynslu Útflutningsráðs líka yfir á ferðaþjónustuna, vegna þess að ég er sannfærður um það að fátt er mikilvægara í íslensku atvinnulífi nú en að reyna að nýta vaxtarbroddana þar til þess að búa til gjaldeyri og til þess að búa til störf, m.a. vegna þess að það er engin atvinnugrein á Íslandi þar sem fjárfesting að baki hvers starfs er jafnlítil og í ferðaþjónustu. Við þurfum á þessu að halda.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði mig ýmissa spurninga, m.a. hún og ýmsir aðrir sem hér tóku til máls töldu að ekki væri nægjanleg áhersla á sjávarútveg og landbúnað í frumvarpinu. Nú segi ég það sem ég segi um öll þingmál sem ég flyt, nú er það komið frá mér til þingsins, þingið getur breytt því. Að því sögðu vil ég benda á það að ég held að hv. þingmaður hafi misskilið, eða mér heyrðist það, hvernig stjórnin er samsett. Mér heyrðist hún segja að það væri einn frá Samtökum atvinnulífsins, þeir eru fimm. Og Samtök atvinnulífsins geta sett hvern þann inn í stjórnina sem þau vilja og ég hugsa, án þess ég viti það og ég fyrirskipa ekki, að það verði kannski tveir frá Samtökum ferðaþjónustunnar, frá landbúnaði, frá sjávarútvegi til dæmis. Þannig að þessir gildu atvinnuvegir munu allir verða þarna inni.

Það sem er kannski gagnrýnisvert og er töluvert nýmæli er sú áhersla sem er á menningarkynningu í frumvarpinu. Mennta- og menningarmálaráðherra á þarna fulltrúa. Það er ekkert sjálfgefið að ég skipi það. Ég held að það sé rétt, vegna þess að ég held að menning og menningarkynning sé mjög vanmetinn þáttur í því hvernig við byggjum upp orðspor Íslands.

Hefur það orðspor Íslands brotnað mélinu smærra? Hefur það beðið verulegan hnekki? Ég held að það hafi beðið verulegan hnekki á fjármálasviðinu. Ef ég hins vegar lít t.d. á ferðaþjónustuna, nú vísa ég bara til þess sem sterkir og öflugir ferðamógúlar erlendir sem eru að flytja menn til Íslands segja mér — þeir kölluðu hrunið eins og einn sagði á ráðstefnu sem ferðamálaráðuneytið hélt The Million Pound Campaign. Sá maður sagði það við fullan sal íslenskra ferðamálafrömuða. Í hvert skipti sem kæmi mynd eða frétt í bresku sjónvarpi af hrunadansi íslensku bankanna væru birt þrjú til fimm myndskeið af íslenskri náttúru sem hann hefði ekki efni á að birta. Hann sagði að eftirspurn eftir ferðum til Íslands hefði, þetta var þegar fjórir mánuðir voru liðnir frá hruni, aldrei verið jafnmikil. Þannig að það eru tvær hliðar á öllum málum. Ég held að þessar alvarlegu afleiðingar sem við búum við út af þeim orðsporshnekki sem lýtur að fjármálahruninu, það sé hægt að byggja það upp. Það verðum við að gera með því að slá heldur fastar undir nára á þeim gæðingum sem við höfum til þess að fara í þá útrás og það eru menningin ekki síst, það er kynning á landinu sjálfu, það er kynning á því hver við erum, segja söguna.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði mig nokkurra afmarkaðra spurninga fyrir utan þessa. Hún velti því t.d. fyrir sér af hverju það væri svona rígneglt niður að 14% af tekjum af markaðsgjaldi sem rennur til Íslandsstofu ættu að fara til þess að kynna möguleika til fjárfestinga fyrir erlendum aðilum. Það er nú einfalt svar og kannski ekkert hugmyndaríkt, en þetta er fyrir hendi í samningi sem var gerður í desember 2004. Þar fyrir utan hafa einstök ráðuneyti síðan látið Fjárfestingarstofu í té aukið fjármagn, ekki mjög mikið. Mig minnir að á mínum tíma sem iðnaðarráðherra hafi Fjárfestingarstofan þar fyrir utan fengið 15 milljónir árlega til þess að standa straum af ýmsum verkefnum sem við báðum hana að gera sérstaklega, eins og t.d. þá miklu vinnu sem við lögðum í gagnavinnsluna.

Hv. þingmaður spurði líka hvað ylli þessu orðalagi, að útseld þjónusta skyldi standa að mestu leyti undir kostnaði. Arfur liðins tíma. Þetta er svona í lögum núna og Útflutningsráð er að selja tiltekna stuðningsþjónustu gagnvart einstökum fyrirtækjum og menn hafa haldið þessu orðalagi. Og svona er þetta sennilega líka í praxís. Þá held ég að ég hafi svarað þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi beinlínis til mín.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason taldi að ferðaþjónustunni væri ekki gert nógu hátt undir höfði. Ja, herra trúr, þetta frumvarp er meira og minna teiknað í kringum ferðaþjónustuna. Þannig að þær vonir sem ég bind við þetta frumvarp er einmitt að Íslandsstofa verði ferðaþjónustunni veruleg lyftistöng.

Þá kemur kannski að því, hvaðan koma hinir nýju peningar inn í þetta? Ja, það var ósk ferðaþjónustunnar, sem var á sínum tíma komið á framfæri við mig, að markaðsskrifstofurnar erlendis yrðu lagðar niður, starfsmennirnir fluttir yfir í Íslandsstofu, sem þá hafði reyndar ekki hlotið nafn, og fjárveitingarnar til skrifstofurnar yrðu frekar nýttar til beinnar markaðssóknar. Samtök ferðaþjónustunnar, alveg eins og ég og fleiri, eins og komið hefur fram í dag, hafa tröllatrú á því að það skipti mjög miklu máli að geta búið til fjármagn til þess að kynna Ísland og sækja erlenda ferðamenn. Það kostar peninga. Ég er þessu sammála. Ég held að hver króna sem í það er eytt skili sér margfalt til baka. Við höfum af því svolitla reynslu. Með þessu er verið að búa til peninga sem eru nýttir með öðrum hætti í kerfinu og ferðaþjónustan og sá sem flytur þetta frumvarp fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er þeirrar skoðunar að peningarnir nýtist miklu betur með þessum hætti. Menn stefna síðan auðvitað að því, eins og ég hef sagt hér fyrr í dag, að þegar tímar líða og menn hafa meiru úr að spila muni meira fjármagn koma undir þeim lið sem kemur fram hér í tekjuákvæði frumvarpsins, sem heitir fjárveitingar á fjárlögum.

Ég tel að það skipti máli fyrir okkur að við verjum fé til þess að sækja ferðamenn. Því miður er staðan þannig að það er ekki auðhlaupið að því að afla þess fjár á meðan ríkissjóður er (Forseti hringir.) rekinn með þeim halla sem hann er rekinn í dag.