138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[17:56]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega. Hér á Íslandi hefur því verið þannig háttað að réttur skuldara hefur verið nánast enginn og þeir verið algjörlega upp á lánardrottna sína komnir. Gjaldþrota menn hafa nánast haft stöðu útlaga og ekki getað tekið fullan þátt í samfélaginu, jafnvel ævina á enda.

Í hruni eins og því sem nýlega dundi yfir okkur felast mörg og mikil tækifæri til endursköpunar samfélagsins. Ég óttast að við séum að láta mörg þeirra renna okkur úr greipum þessa dagana. Verði ekkert að gert stefnir í að fólk verði hér gjaldþrota í stórum stíl, t.d. vegna stökkbreyttra bílalána eða húsnæðislána þar sem algjör forsendubrestur hefur orðið. Fyrir mér eru það sjálfsögð mannréttindi að ekki sé hægt að ganga lengra í innheimtu krafna en að hinu veðsetta. Þá eru ótaldir þeir sem lenda í vandræðum vegna ættingja sinna eða vina vegna ábyrgða.

Víða geta menn skilað lyklunum að húsnæði sínu hafi þeir gefist upp á að greiða af húsnæðislánum og verið lausir allra mála. Áhættunni af fjárfestingunni er því skipt á milli lánþega og lánveitanda.

Herra forseti. Nú verðum við að fara að hugsa um það í alvöru í hvernig þjóðfélagi við viljum búa og við hljótum að geta verið sammála um að samfélagið eigi að vera fyrir fólk en ekki fjármálafyrirtæki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)