138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[18:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum um breytingu á lögum um samningsveð, frumvarp sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir er fyrsti flutningsmaður að. Ég fagna frumvarpinu. Það felur í sér að ekki er hægt að ganga í önnur veð en fasteignir þegar um er að ræða lán vegna fasteignakaupa.

Eftir hrunið í október hefur mikið verið fjallað um það að fjármagnseigendum hafi verið bjargað. Fjármagnseigendur fengu mjög mjúka og góða meðferð af þáverandi stjórnvöldum og þeir sem skuldirnar hafa, þeir sem skulda, bagginn hefur verið fluttur yfir á þessa aðila. Það er alþekkt þegar svona gerist að fjármagnið sér um sig sjálft en þeir sem minna mega sín, þeir sem hafa skuldirnar, það eru færri sem hugsa um þá.

Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi og var rætt án þess að það næði fram að ganga og er því mælt fyrir því aftur. Þá var mikið talað um að frumvarpið væri of róttækt og hefði það í för með sér að krafist yrði aukinna veða og krafist yrði ábyrgðarmanna og lánareglur og annað yrðu hertar. Ég held að það muni ekki verða. Ég held að frumvarpið sé einmitt það sem þurfi. Þetta er frumvarp sem margar fjölskyldur bíða eftir því að ástandið er mjög víða orðið mjög alvarlegt og það þarf róttækar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Verði ekkert að gert í þeim efnum kann illa að fara fyrir mjög mörgum heimilum og fjölskyldum í landinu.

Þetta mál á rætur sínar að rekja til landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem starfaði nefnd sem fór yfir skuldamálin. Sú nefnd var undir forustu hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Sá hópur sem þar var hittist síðan í framhaldinu og hittist nokkrum sinnum og frumvarpið er sem sagt lagt fram í framhaldi af þeirri vinnu sem þar fór fram. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir á heiður skilið fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í frumvarpið, bæði á landsfundinum, eftir landsfundinn og við gerð frumvarpsins.

Ég vonast svo innilega til þess að þegar þetta fer í nefnd nái þessar breytingar fram að ganga og það fari ekki fyrir þessu þingmannamáli eins og svo mörgum þingmannamálum að mælt er fyrir þeim aftur og aftur á hverju þingi og síðan sofna þau í nefnd. Ég vonast til þess að þetta mál nái fram að ganga og þingmeirihluti verði fyrir því hér á þingi.

Það vekur samt furðu mína og mig langaði að beina smá — kannski 1. flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, geti komið inn á það, að að þessu frumvarpi standa þingmenn frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, frá Hreyfingunni, frá Framsóknarflokknum auk Þráins Bertelssonar, sem er óháður. Mig langaði að spyrja hv. þingmann að því hvort ekki hafi verið rætt við þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um að taka þátt í að flytja frumvarpið, og hún kemur kannski inn á það á eftir, hún endar á að tala áður en þessu verður vísað til nefndar.

Ég styð frumvarpið og finnst það gott, finnst það tímabært. Ég vonast til að það fái skjóta meðferð í þinginu. Það er mjög mikilvægt að þegar nauðungarsölum verður hætt á nýju ári verði þetta frumvarp komið í gegnum þingið og orðið að lögum.