138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því sérstaklega sem hæstv. umhverfisráðherra segir hér sem mér þykir skynsamlegt, því að megininnihaldið eins og ég skil það er að þessu íslenska ákvæði verður haldið til haga þangað til hagsmunir Íslands verða skýrari. Þetta er eðlileg nálgun og kannski betri orðræða en sú sem fór fram hér um daginn í utandagskrárumræðunni. Það væri glannalegt að henda því bara frá sér án þess að vita hvað tæki við. Ég er alveg sammála því sem hér kom fram, auðvitað væri langþægilegast að þurfa ekki að vera með neinar svokallaðar undanþágur eða svokallað íslenskt ákvæði eða eitthvert sérákvæði. Auðvitað er það langbest, en þá verða menn að vita í hvað er verið að fara.

Eins og ég skil þetta förum við inn í þetta kvótakerfi ESB, fáum þarna úr sameiginlegum potti og 5% verður líka endurúthlutað. 5% eru svolítið mikið í heildarsamningi í Evrópu. Ég veit ekki hvort hæstv. umhverfisráðherra þorir að tjá sig mikið um það, en er sú er hér stendur á villigötum með því að segja að þar sé tækifæri ef við viljum fara í einhverja uppbyggingu hér í framtíðinni á stóriðju, hvort sem það er álver eða eitthvað annað, og vegna okkar hreinu orku, sem er jarðvarmi og vatnsafl, og mikillar tækni almennt? Við erum að benda á það að álverin okkar eru miklu tæknilegri en flest önnur, þannig að þau menga hlutfallslega mjög lítið óháð orkugjafanum. Stöndum við þá ekki frekar sterk að vígi þar? Er hægt að færa rök fyrir því að þetta nýja kerfi sem við erum hugsanlega að fara inn í sé bara allt í stakasta lagi gagnvart hugsanlegri stóriðju í framtíðinni?