138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[18:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt eins og hv. þingmaður orðar það er niðurstaðan langbest fyrir okkur ef við þurfum ekki á íslenska ákvæðinu að halda, en við þurfum að vita út í hvað við erum að fara. Það er eiginlega kjarni málsins.

Hvað varðar þessa 5%-umræðu tjái ég mig ekki um hana að svo stöddu, en hins vegar sitja íslensk stóriðja og íslensk stóriðjufyrirtæki við algjörlega sama borð og öll önnur stóriðjufyrirtæki í Evrópu þegar þessari kerfisbreytingu verður lokið. Þá gerum við ráð fyrir því að til að byrja með fái menn heimildir án endurgjalds, en síðan fari sá kostnaður vaxandi eftir því sem líður á tímabilið en sé þó minnstur fyrir þau fyrirtæki sem minnst losa.

Ég vildi bara örstutt nefna það, forseti, þar sem ég hef örfáar sekúndur í viðbót að við vinnum líka að því hörðum höndum að Ísland taki á sig sameiginlegar skuldbindingar með ESB-ríkjunum í nýju samkomulagi. Sú vinna gengur vel og samninganefnd Íslands hefur skoðað þessa leið. Við höfum sent bréf til forustumanna ESB í loftslagsmálum og þetta er alveg óháð afstöðu okkar til Evrópusambandsins að öðru leyti, en mundi gera alla þessa aðkomu skýrari og líka að því er varðar ETS-kerfið.