138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um gott mál að ræða eins og segja má um mörg önnur mál sem við ræðum. Málið snýr að því að halda áfram að vera í fremstu röð þegar kemur að því að huga að gróðurhúsalofttegundum og hvernig við nýtum og skilum best til heimsins okkar hlutverki og hlut í því að fara með þessi mál af skynsemi. Það er alveg ljóst að merkasta framlag Íslands — eða eitt af merkari, best að taka ekki of stórt upp í sig, framlögum Íslands til umhverfismála er þessi hreina orka sem við eigum í dag. Ég vil leyfa mér að fullyrða að ef við stöndum ekki fremst allra Evrópuþjóða í því að nýta hreina orku og draga úr þeirri mengun sem hlýst af iðnaðarframleiðslu og öðru slíku, þá erum við með þeim fremri, ef við erum ekki fremst.

Það er alveg ljóst að við þurfum að halda öllu því sem við getum verið með varðandi þetta mál, við þurfum að halda því öllu áfram, vegna þess að við Íslendingar getum ekki látið það um okkur spyrjast að við gefum eftir helsta framlag okkar til loftslagsmála með því að fara ekki fram á ýtrustu kröfur sem við getum farið fram á hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég fagna orðum ráðherra hér áðan. Ég skil orð hennar á þann veg að því verði haldið til haga, verði í sjálfu sér haldið til streitu, að hámarka hlut Íslands í þessu. Við getum ekki annað, við getum ekki horft framan í umheiminn og sagt: „Ja, við teljum að það sé betra að nýta orku sem mengar meira en okkar til þess að sjá heiminum fyrir nauðsynlegri vöru og þjónustu og öðru slíku.“ Því er mjög mikilvægt að heyra það frá ráðherra að ýtrustu hagsmunum okkar verði haldið til haga.

Það kann vel að vera að rétt sé að falla frá undanþágum eins og þeirri sem m.a. er nefnd í þessari þingsályktunartillögu, en það þarf þá að vera þannig að sá varanleiki sem kemur í staðinn dekki þá undanþágu sem veitt hefur verið. Ég tek undir það að við eigum að skoða það af fullri alvöru að ef varanleikinn er slíkur þá þurfum við e.t.v. ekki að halda undanþáguákvæðinu til streitu. Ég vil taka skýrt fram að hann verður þá að vera alveg augljós.

Það hefur vakið athygli, og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vakti máls á því hér áðan, að hér kom formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna og hældi Íslendingum mjög fyrir hvernig staðið hefur verið að málum. Við eigum að byggja á því. Við eigum að láta þjóðir heims og heiminn vita af því að við stöndum okkur vel. Við eigum ekki að tala þannig, og nú er ég alls ekki að saka neinn sem er í þingsal í dag um að tala þannig, en við eigum ekki að láta eins og eitthvað sé upp á okkur að klaga varðandi þessi loftslagsmál eða varðandi umhverfismál. Íslendingar eru víða fremstir í flokki þegar kemur að þessum málaflokki. Við eigum að sjálfsögðu að vera það áfram. Ég er þeirrar skoðunar að ef við getum nýtt þá hreinu orku sem við eigum til þess að framleiða vöru eða til þess að auka lífsgæði þjóðarinnar, eða jafnvel annarra þjóða, þá eigum við að gera það eins mikið og við getum. Þá er ég ekki að segja að við eigum að setja alla orkuna í einhvern einn ákveðinn farveg, alls ekki. Við eigum að nýta þær auðlindir sem við höfum til þess að bæta samfélag okkar og til þess að bæta heiminn eins og við höfum alltaf gert. Við megum ekki kasta því á glæ og megum ekki gefa það eftir. Ég treysti því eftir ræðu hæstv. ráðherra hér áðan að það verði gert áfram, að hagsmunum Íslands verði haldið ítarlega á lofti.