138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held kannski að hæstv. ráðherra hafi komið inn á mál sem hún lumar, að menn vilji vera 100% vissir að verið sé að gæta að hagsmunum Íslands en ekki einhverra annarra. Ég skildi það ekki sem svo að hæstv. ráðherra væri að berjast fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga, ég á kannski síður von á því í loftslagsmálum. En kannski er nauðsynlegt, ekki síst í ljósi öfgafullrar umræðu í allar áttir þegar fjallað hefur verið um orkumál á síðustu árum, að svona þingsályktunartillaga komi fram og að hún sé rædd á þinginu þar sem hinn raunverulegi vilji þjóðarinnar og þingsins kemur fram, hvernig á að standa að því að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands. Það er auðvitað einhver skoðanamunur um það og við höfum kannski týnst svolítið í kerfisbreytingum í dag sem menn geta alveg tapað sér í, af því að við vitum ekki hvað tekur við fyrr en samningaviðræðunum er lokið. En mikilvægast hlýtur að vera að viðurkenna að sérstaða Íslands er gríðarlega mikil, hagsmunir okkar eru líka miklir á þessu sviði og við þurfum að gæta allrar varúðar í samningum við aðrar þjóðir. Eins og við þekkjum mætavel á öðrum vettvangi eru þær mjög grimmar við að gæta sinna hagsmuna og við þurfum svo sannarlega að verja okkur og hagsmuni okkar á hverjum tíma.