138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:50]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að heyra að við, ég og hv. þm. Sigurður Ingi, erum sammála um að vilja minnka mengun í alheiminum, eins og fram kom í máli þingmannsins. Við eigum auðvitað að halda áfram okkar góða starfi, t.d. í þróunarmálunum — Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. Allir eru sammála um það og það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að við erum langfremst þjóða í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, sem er frábært. Sérstaða Íslands er gríðarleg að þessu leyti, eins og fram hefur komið. Ég vil þá segja: Notum þessa sérstöðu, verum fremst í flokki í vernd umhverfisins á heimsvísu, mætum til Kaupmannahafnar og stöndum vörð um ýtrustu hagsmuni allrar heimsbyggðarinnar með því að þrýsta á um að þar verði komist að samkomulagi sem tryggir t.d. að Maldíveyjar sökkvi ekki í sæ einhvern tíma á allra næstu áratugum. Það er reyndar dálítið vandræðalegt ef við ætlum að taka okkur þessa stöðu hvað við erum nú þegar farin að menga mikið á haus, svo því sé haldið til haga.

Ég vil spyrja hv. þingmann fyrst við erum komin til Kaupmannahafnar í huganum: Hvað vill hann segja við t.d. íbúa frá Bangladess sem þar er staddur þegar að við vitum að mengun á hvern íbúa í tonnum á ári frá Bangladess er innan við eitt tonn meðan Ísland er kannski komið í 17? Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er ekki með þessar tölur alveg nákvæmlega á hreinu. Aðeins fyrir ofan okkur eru t.d. Bandaríkin og Ástralía. Hvað vill hv. þingmaður segja við fólk frá svona löndum þegar hann fer fram á að við Íslendingar fáum undanþágu til að geta mengað og mengað meira? Það er það sem þessi þingsályktunartillaga snýst um.