138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður vera svolítið ýtin við að halda því fram að við séum mjög mengandi þjóð og komum illa fram við þróunarlöndin og annað slíkt. Við erum auðvitað ein af ríku Vesturlöndunum eða vorum það til skamms tíma. Ég hef trú á að við verðum það fljótlega aftur þegar við rísum úr öskustó skulda og Icesave-vandræða, svo það sé nefnt í ræðustóli í dag til tilbreytingar. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður spurði mig hvernig mér fyndist ef Íslendingar menguðu allra þjóða mest og tiltók að við mundum þá væntanlega byggja upp mengandi stóriðju eða eitthvað slíkt. Í máli mínu kom ég aðeins inn á að í gangi eru verkefni þar sem unnið er að því að binda kolefni í jörðu og að framleiða metanól til að setja á bifreiðar. Það hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna að hér er stefnt að því að framleiða lífdísil og annað og að við gætum horft fram á þá tíma að við værum lausir við allt jarðeldsneyti úr skipa- og bílaflota okkar. Ef við næðum því ótrúlega marki að ná 100% endurnýjanlegri orku mundum við leggja mjög mikið til alheimsins með því að hér yrði framleitt það ál og mengandi hlutir, því miður, sem heimurinn þarf á að halda í stað þess að þeir séu framleiddir í Rotterdam með kolum. Þá mundi ég ekki skammast mín fyrir það í samhengi loftslags alheimsins. Aftur á móti finnst mér það ekkert sérstakt eftirsóknarvert atriði og ég held að við eigum að stefna að mun fjölbreyttara atvinnulífi með minna mengandi iðnaðarvörum. (APS: Jess!)