138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:59]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mig langaði við lok umræðunnar að þakka fyrir mjög málefnalegar umræður. Það er alveg ljóst að þessi umræða er á allt öðrum nótum en utandagskrárumræðan sem var hér fyrir stuttu um sama mál. Ég fagna því. Mér sýnist eins og þingmenn almennt hafi núna kannski meiri upplýsingar og átti sig aðeins betur á stöðunni. Ég held að það sé ekki eins langt á milli aðila og fyrri umræða gaf til kynna. Það hefur komið fram hjá hæstv. umhverfisráðherra að íslenska ákvæðið er á borðinu og því verður haldið til haga þangað til menn vita hvað annað er í boði. Það er ósköp eðlilegt. Sú er hér stendur og líka fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem tók þátt í þessari umræðu áðan hafa sagt að það þurfi ekkert endilega að ríghalda í íslenskt ákvæði ef við fáum eitthvað annað í staðinn sem er í lagi. Það er ekkert svo langt á milli aðila í þessari umræðu, virðulegi forseti.

Hins vegar verður maður að taka tillit til þess að þegar íslenska ákvæðið var fengið á sínum tíma sneið það okkur svo þröngan stakk, þessi 10% sem við fengum í Kyoto, að það varð að fá íslenska ákvæðið til að geta nýtt orkuna okkar í ákveðin verkefni sem menguðu. Álver mengar, það mengar hér, það mengar annars staðar, það mengar reyndar miklu minna hér út af orkunni sem álverið notar hér. Sumir hafa kosið að tala um að við höfum verið að grenja út undanþáguákvæði og hvað eigum við að segja við aðrar þjóðir sem eru að sökkva o.s.frv. Ef einhver heldur að þetta séu þröngir hagsmunir Íslands er það rangt. Ef þetta íslenska ákvæði hefði verið þröngir hagsmunir Íslands hefðu umhverfisráðherrar annarra ríkja ekki fallist á það. Af hverju féllust þeir á þetta ákvæði, umhverfisráðherrar annarra ríkja? Vegna þess að það var vit í því, það var skynsamlegt fyrir lofthjúpinn. Þessi umræða um að menga per haus er rosalega villandi og að mínu mati er hún einungis sett fram til að reyna að koma samviskubiti inn á þessa þjóð sem þjóðin á ekki að bera. Ég vil nefna nokkur dæmi varðandi mengun á íbúa.

Hér eru eiginlega þrír geirar sem menga, samgöngur, fiskiskipaflotinn og iðnaðurinn. Þetta er sú mengun sem við búum við í dag af því að við erum búin að hreinsa upp upphitun á húsum með endurnýjanlegri orku, aðallega hitaveitu. Tökum fiskiskipaflotann. Við mengum mjög mikið á mann þar. Og af hverju? Af því að við erum fiskveiðiþjóð. Við erum fá, við erum með öflug skip og veiðum mikið. Af hverju erum við að veiða mikið? Sérstaða okkar er sú að við erum með mikið landgrunn hér sem gefur af sér mikinn fisk þannig að við erum að menga mikið á mann í fiskveiðum. Eigum við að vera alltaf að ota því að þjóðinni að það sé mjög slæmt? Þetta er bara eðli málsins samkvæmt. Við mengum hér líka alveg ótrúlega mikið á íbúa í flugvélakosti, í samgöngum í flugi. Skamm skamm. Af hverju eru við að gera það? Vegna þess að við erum fjarri öðrum löndum. Við getum ekki tekið lest til næstu landa, við getum ekki keyrt til næstu landa. Við gætum siglt en það tekur mjög langan tíma þannig að fólk er ekki mikið í því. Fólk tekur flugið. Við erum staðsett frekar langt úti í hafi þannig að það þarf að fljúga langar leiðir.

Við erum líka með fyrirtæki hér sem heitir Icelandair sem vegna staðsetningarinnar er með sitt kerfi uppbyggt þannig að það er flogið til Ameríku, til Íslands, til Evrópu, til Íslands o.s.frv. Ísland er miðpunkturinn. Flugvélarnar eru stöðugt að. Við erum með ótrúlega mörg flugtök á Íslandi, miklu fleiri en 300.000 manns þurfa á að halda. Það er af því að fólk er flutt milli heimsálfa, Ameríku og Evrópu. Þetta íslenska fyrirtæki veldur því að Íslendingar menga ótrúlega mikið á mann í flugi. Þannig er það.

Við erum líka með marga bíla og að mínu mati óþarflega marga bíla. Við erum með mikla mengun per haus þar. Svo erum við með álver og þau valda því líka að við mengum mikið per haus. En af því að þau eru hér, þessi fáu eða mörgu eftir því hvernig menn líta á það, þessi þrjú álver sem hér eru, lendum við í því að menga mikið per haus út af því að við erum svo ótrúlega fá en við erum að minnka mengun per haus alþjóðlega. Hv. þingmaður má ekki gleyma því þegar talað er um mengun per haus. Við erum að minnka hana alþjóðlega. Þess vegna fengum við þetta ákvæði. Það var ekki út af neinu öðru, bara af því að það er gott fyrir lofthjúpinn.

Ég vil draga mjög skýrt fram, virðulegur forseti, að Íslendingar eiga ekki að hafa samviskubit yfir því að þeir menga mikið á mann almennt séð. Það eru skýringar á því. Við eigum hins vegar að gera betur, eins og við mögulega getum. Við þurfum að fara meira út í rafmagnsbíla, helst lestasamgöngur að einhverju leyti. Ég vil draga það fram að hæstv. forseti er 1. flutningsmaður að því máli að skoða lestasamgöngur og ég er á því líka. Mér finnst það mjög spennandi. Þó erum við fá. Við eigum mikið rafmagn. Það þarf að reyna að fasa olíuna út í fiskiskipaflotanum eins og hægt er og það eru margar nýjungar í því að reyna að spara olíu á fiskiskipaflotann o.s.frv. Það þarf lífsstílsbreytingu hjá almenningi og fyrirtækjum til að menga minna. En það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að nýta okkar endurnýjanlegu orku, það er lykillinn í þessu.

Virðulegi forseti. Við verðum stundum ansi grobbin af því hvað við erum miklir heimsmeistarar í að nýta endurnýjanlega orku. Það er rétt en við erum líka ofboðslega heppin. Við erum svo heppin að Ísland er þar sem það er og við erum hér og þess vegna er þessi staða. Það er svokallaður heitur reitur undir Íslandi og jarðfræðilega er auðvitað stórkostlegt að hafa allan jarðvarmann út af því. Jarðskorpan er mjög þunn, 10 sinnum þynnri en í öðrum ríkjum, 10 km jarðskorpa hér, 100 km í öðrum ríkjum almennt þannig að við erum geysilega heppin. Við megum ekki verða of sjálfhælin í því hvað við erum miklir heimsmeistarar í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, og allt vatnsaflið er auðvitað út af jöklunum okkar.

Hins vegar eru önnur ríki sem hafa líka möguleika á að nýta endurnýjanlega orku en þau hafa ekki tæknigetuna til þess, því miður, og við höfum reynt að aðstoða þau. Við höfum getað byggt hér upp mannauð þannig að við getum tæknilega nýtt bæði jarðvarmann og vatnsaflið.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir mjög málefnalega umræðu. Ég held að við séum ekki eins klofin á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og fyrri umræða gaf til kynna og ég fagna því sérstaklega að umhverfisráðherra hefur skýrt betur en fyrr stöðu mála. Þótt enn vanti meiri upplýsingar er íslenska ákvæðið á borðinu og það verður þar þangað til við vitum í hvaða nýja kerfi við förum endanlega. Það getur vel verið að við séum að fara í þannig kerfi að sérstaða okkar nýtist án þess að við höfum endilega þetta íslenska ákvæði þar á bak við. Segjum að koldíoxíðskattar komi á almennt í Evrópu og í heiminum sem er mjög líklegt. Þá þurfa þessi íslensku fyrirtæki, ef við tökum álver sem dæmi, ekki að borga koldíoxíðskatt á orkuna sem þau nota af því að þau nota ekki kol og olíu. Þá sleppa þau við skattinn. En það yrði þá meiri skattur á fyrirtæki sem þurfa að nota kol og olíu þannig að það er þá betri samkeppnisstaða fyrir okkar fyrirtæki.

Þetta er það sem ég vildi segja að lokum, virðulegur forseti. Ég þakka fyrir mjög góða og málefnalega umræðu.