138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Framkomið frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum er um margt athyglisvert. Hér er gert ráð fyrir að leiðrétta þann lýðræðishalla sem sannarlega er víða á sveitarstjórnarstiginu og mér þykir að hér sé ágætismál á ferðinni en nokkuð bratt farið. Til að mynda er gert ráð fyrir að fjöldi borgarfulltrúa í Reykjavík verði fjórfaldaður á einu bretti. Í sveitarfélögum eins og Kópavogi og Hafnarfirði er gert ráð fyrir að þrefalda fulltrúafjöldann, eða því sem næst, og fleira mætti telja.

Á hinn bóginn er löngu tímabært að taka á þeim vanda sem er t.d. í Reykjavík þar sem fleiri atkvæði þarf til að kjósa fulltrúa í borgarstjórn en þingmann á Alþingi. Hér finnst mér hins vegar vanta allar vangaveltur um kostnað sem þessu fylgir en vafalítið verður það rætt í nefnd. Ætla má að kostnaðarauki sveitarfélaganna verði verulegur og beinist þá ekki eingöngu að fjölgun kjörinna fulltrúa heldur einnig að fjölgun nefndarmanna í einhverjum tilvikum og vafalítið að einhverju leyti að uppbyggingu aðstöðu fyrir þessa fulltrúa. Sem dæmi má nefna að sá salur sem borgarstjórn Reykjavíkur notast við núna rúmar tæplega 61 fulltrúa með góðu móti, alla vega ekki án verulegra breytinga á húsnæðinu.

Til þess að það fari nú ekki á milli mála tel ég hins vegar að slík atriði megi ekki þvælast fyrir okkur þegar við ræðum um að efla og auka lýðræðið en það gæti þýtt að við færum ekki eins bratt í hlutina. Hv. þm. Þór Saari hefur raunar nú þegar komið inn á að það gæti komið til greina að fara rólegar í sakirnar en hér er talað um. Ég tel að vel megi vinna með það frumvarp sem hér liggur fyrir en að umfang fjölgunarinnar og kostnaðarauka verði að athuga vandlega.