138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og kom fram í umræðum í gær um sama mál hefur enn þá ekkert verið ákveðið um tekjuöflunarhlið fjárlagafrumvarpsins og málið er enn á vinnslustigi. Af því hafa hins vegar borist fréttir í fjölmiðlum, eins og hv. þingmaður kom inn á, en því er til að svara að málið er til umfjöllunar, bæði í þingflokki Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Ég verð síðan að segja, frú forseti, að málflutningur sjálfstæðismanna, sérstaklega í þessum sal, bæði í gær og í dag, undrar mig, að menn skuli koma upp undir liðnum um fundarstjórn forseta og ræða mál eftir að forseti var búinn að segja sérstaklega að fundað yrði með formönnum þingflokka. Og það er búið að setja á, hv. þingmaður, sérstaka umræðu um skattamálin og um tekjuöflunarhlið fjárlaganna á föstudaginn að beiðni þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Á föstudaginn fer fram umræða um þetta mál. Ég verð að segja, (Gripið fram í.) frú forseti, að mér finnst þessi framkoma vera lýðskrum af verstu sort af hálfu Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.] Það er lýðskrum af verstu sort hvernig menn haga sér hér þegar ríkisstjórnarflokkarnir eru í miðri hreingerningu (Gripið fram í: Með allt niður um sig.) (Gripið fram í.) eftir ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks [Háreysti í þingsal.] að menn skuli svo leyfa sér að koma hér (Gripið fram í: Og skúra.) eins og hvítskúraðir englar [Hlátur í þingsal.] og tala með þeim hætti sem menn leyfa sér að gera. Ég held að ég sé ekki sú eina sem upplifi þennan málflutning sem lýðskrum, ég fullyrði að þjóðin sem fylgist með framgöngu ykkar í þingsal, bæði í gær og í dag, veit að þetta er lýðskrum af verstu sort. [Hlátur í þingsal.]