138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg makalaust að stjórnarliðið kveinki sér undan því að ræða jafnmikilvæg mál og hækkun skatta á Íslendinga. Það er með ólíkindum að 11. nóvember skuli ekki enn þá vera komnar fram hugmyndir af hálfu þessarar ríkisstjórnar um skattahækkanir, að sú umræða sem þó fer fram skuli vera í fjölmiðlum og ekki í sölum þingsins og að hv. þingmenn stjórnarliðsins kveinki sér undan því að svara spurningum og geti ekki svarað nokkrum sköpuðum hlut um nokkurn skapaðan hlut. (SVÓ: Lýðskrum.) Þannig er staða málsins hér í dag.

Mig langar af þessu tilefni til að varpa fram spurningu og blanda inn í umræðuna hv. þm. Magnúsi Orra Schram vegna þeirrar fjölmiðlaumræðu sem á sér stað um skattahækkanir. Það er alveg greinilegt að það stendur ekki til að blanda þingmönnum inn í áform ríkisstjórnarinnar um hvernig afla eigi tekna inn í þetta þjóðarbú.

Í gær var framkvæmdastjóri BHM í sjónvarpsviðtali og kallaði þessi áform ríkisstjórnarinnar, sem nú eru fyrst og fremst rekin í fjölmiðlum, veiðileyfi á ákveðinn þjóðfélagshóp, á þá í þessu landi sem hafa tekjur á bilinu 300.000–500.000 kr., kallaði þessi áform hreint og beint veiðileyfi á þennan hóp sem geti valdið honum gífurlegum erfiðleikum og tjóni. Það var bætt um betur í Kastljósi í gærkvöldi þar sem tveir hagfræðingar komu saman til skrafs og ráðagerða, Ragnar Árnason og Katrín Ólafsdóttir. Bæði vöruðu eindregið við þeim hugmyndum ríkisstjórnarinnar að hækka tekjuskatt með þessum hætti, sögðu að þetta hefði vinnuletjandi áhrif og gæti þar að auki valdið verulegum brottflutningi akkúrat þessa fólks sem er með þessar tekjur, 300.000–500.000 kr. á mánuði. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram — og ég vona að stjórnarliðar verði málefnalegri í þessari umræðu en hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var núna áðan — og biðja hann að svara því hvaða afleiðingar þessar skattahækkanir þeirra munu hafa.