138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa brýnu fyrirspurn því að málefni Náttúruminjasafnsins undangengin ár hafa verið íslensku þjóðinni til skammar og okkur hér. Safnið hefur verið niðri í kössum og ekki til sýnis og það hefur verið áætlun stjórnvalda á hverjum tíma að byggja þetta safn upp. En við stöndum frammi fyrir allt öðrum tímum í dag en var árin 2005, 2006 og 2007 og fjármunir eru vissulega af skornum skammti. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að hugsa út fyrir kassann því að vítt og breitt um landið, hér á höfuðborgarsvæðinu, fyrir norðan og fyrir austan og vestan, eigum við ágætishúsnæði og það er ekkert lögmál að þetta safn eigi að vera undir einu þaki. Það væri hægt að hafa það vítt og breitt um landið því að náttúran er um allt land. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hugsa aðeins út fyrir kassann þannig að hægt sé að leyfa jafnvel ákveðnum stöðum að njóta sérstöðu sinnar og sýna þá hluti sem einkenna viðkomandi samfélög vítt og breitt um landið. En enn og aftur þakka ég þessa brýnu fyrirspurn því að við verðum að leysa úr þeim vanda sem blasir við okkur.