138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er algerlega mín skoðun og ég er sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að höfuðstöðvarnar eiga að vera hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þess eðlis sem þetta safn er og þeirra sem það á að þjóna. Hins vegar er hægt að hafa sýningar út um allt land. Víða er safnahúsnæði sem getur tekið við því og það er mjög gott fyrir byggðir landsins að fá slíkt til sín.

Ef Þjóðmenningarhúsið er valið er hægt að koma upp sýningum þar frekar hratt. Það hús liggur t.d. vel við almenningssamgöngum. Það er frekar auðvelt að koma þangað með skólabörn og ferðamenn eiga greiðan aðgang þangað. Þeir koma langflestir hingað á höfuðborgarsvæðið, fara svo auðvitað út um landið en flestir koma þarna í gegn, og það væri hægt að hefja rekstur á skömmum tíma. Leikskólar og grunnskólar gætu komið þarna inn á sýningu á næsta ári, þjónusta við almenning gæti hafist 2011–2012, hafa þeir sagt mér er til þekkja, og það væri hægt að þjónusta ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, upp úr 2011. Við erum með tvö önnur höfuðsöfn í rekstri, Þjóðminjasafnið og Listasafn Íslands og það er auðvitað fráleit staða að vera ekki með neitt náttúruminjasafn. Af því að svo mikið var rætt í gær um ferðamál þá vitum við að ferðamenn munu sækja hingað í stríðum straumum á næstunni þannig að það er mjög eðlilegt að koma upp svokallaðri gestastofu fyrir allt landið, höfuðstöðvum sem yrðu þá Náttúruminjasafn Íslands. Þetta blasir við.

Ég heyrði að hæstv. menntamálaráðherra talaði um að það væru ákveðin grá svæði varðandi gripina á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Auðvitað þarf að greiða úr því og jafnvel endurskoða lögin. Það þýðir ekki að hafa þetta í þessum farvegi. Samt sagði hæstv. ráðherra að aðalmálið sem þetta strandaði á núna væri húsnæðið. Ef húsnæði finnst er hægt að koma þessu upp. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að skoða vel hugmynd um Þjóðmenningarhúsið, hvort ekki væri hægt að koma þar inn miklu lífi með því að setja Náttúruminjasafn Íslands þar niður þó að það þyrfti að ryðja öðru út. Það er fullt af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem gæti þá tekið við því.