138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig mjög athyglisvert að lúslesa fjárlagafrumvarpið sem nú er á borðum þingheims og fleiri manna. Niðurstaðan að einu leyti er sú að aðstoð ríkisins í formi fjárframlaga virðist að mörgu leyti minnka eftir því sem fjær dregur Reykjavíkursvæðinu. Það má m.a. lesa út úr fjárlögum, ekki bara þessa árs og næsta árs heldur einnig áranna þar á undan.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands er mjög stórt orð en þegar kemur að fjárlögum liggur við að maður skelli upp úr. 3,2 millj. kr. er framlagið til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands. Til samanburðar má nefna að Bridgesamband Íslands fær 11,2 millj., skákhreyfingin 40 millj. og Glímusamband Íslands fær jafnvel meira en Vetraríþróttamiðstöð Íslands, 4,1 millj. kr.

Akureyrarbær hefur á undanförnum árum varið gríðarlegum fjárhæðum til að byggja upp skíðaaðstöðu í Hlíðarfjalli fyrir ofan Akureyri. Þar má nefna stólalyftu upp á 163 millj. kr., snjóframleiðslu upp á 100 millj. kr. og svo mætti lengi telja. Reksturinn út af fyrir sig kostar 70–80 millj. kr. Í þessa afþreyingarmiðstöð koma um 70.000 gestir á vetri, þar af er góður meiri hluti búsettur utan Eyjafjarðarsvæðisins eða um 40.000 gestir. Þess vegna spyr maður sig um forgangsröðun þegar kemur að almenningsíþróttum á Íslandi. Hvernig má það vera að jafnstórt nafn og Vetraríþróttamiðstöð Íslands sem lýtur að einni vinsælustu íþróttagrein landsins fái þessa furðulegu upphæð, 3,2 millj. kr., í sinn hlut á meðan t.d. Bridgesamband Íslands fær nánast fjórfalt hærri upphæð? Sú upphæð er reyndar mun hærri en t.d. Landssamtökin Þroskahjálp fá, sem út af fyrir sig er athyglisverður samanburður.

Hver er stefna hins opinbera gagnvart þessari einni vinsælustu almenningsíþróttagrein landsmanna sem hefur aukist mjög að vinsældum á síðustu árum? Á að verja til þessa örfáum milljónum á meðan tugum milljóna er varið til greina sem klárlega njóta mun minni almenningsvinsælda hér á landi?