138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa fyrirspurn sem er brýn. Þegar við leitum að vaxtarsprotum í íslensku atvinnulífi horfum við mjög mikið til ferðaþjónustunnar og þess hvað Vetraríþróttamiðstöð Íslands laðar mikið af ferðafólki, innlendu jafnt sem erlendu, norður í land. Við þurfum í því samhengi líka að horfa til þess að efla samvinnu innan Eyjafjarðarsvæðisins þegar kemur að kynningu á skíðasvæðunum þar. Glæsilegt skíðasafn er í Dalvíkurbyggð og eins í Fjallabyggð, þ.e. á Siglufirði, og þessi þrjú skíðasvæði gætu boðið upp á einstakt framboð í ferðamennsku.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að styðja við Vetraríþróttamiðstöð Íslands og þá æskilegu og miklu samvinnu sem hægt er að vera með innan þessara svæða. Það gæti verið mikill vaxtarbroddur, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, að laða ferðamenn norður í land. Það skiptir miklu máli á þeim tímum sem við lifum núna og væri mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuna.