138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil geta þess, vegna þeirrar umræðu sem var áðan og fyrr í dag í þinginu, og menn hafa talað um lýðskrum, að það eru hæg heimatökin hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni að taka þessi mál upp í fjárlaganefnd, því þetta er dæmigert fjárlaganefndarmál. Ég skora á hann í leiðinni að fara í ákveðna uppstokkun varðandi vinnubrögð fjárlaganefndar sem hafa oft og tíðum verið erfið, ekki síst fyrir mennta- og menningarmál og íþróttamál og skarast oft stefnumótun þar.

Ég vil líka um leið þakka fyrir þessa fyrirspurn og hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir mjög mikið raunsæi í svari sínu en um leið fyrir þann mikla skilning og vilja til að halda áfram þessu samstarfi við íþróttamiðstöðina. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta samstarf sem hefur verið mjög gott við Akureyrarbæ — Akureyrarbær hefur staðið að þessari uppbyggingu, gert það af mikilli reisn og miklum sóma og hefur í rauninni stuðlað að því að allir landsmenn, ekki bara norðanmenn, hafa haft ánægju af að koma þangað. Ég vil því hvetja hæstv. menntamálaráðherra, um leið og hún sýnir þetta raunsæi varðandi uppbygginguna til lengri tíma, til að halda áfram með þetta verkefni.