138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Ég mundi svo gjarnan vilja að við ættum fleiri mínútur þegar við ræður önnur og mikilvæg mál.

Ég vil hins vegar taka heils hugar undir það að þessi sjóður er gríðarlega mikilvægur til að jafna aðstöðumun fólks úti á landsbyggðinni til að geta tekið þátt í almennu íþróttastarfi. Ég vil líka benda á að það er oft mismunur á aðstöðu fólks úti á landi og barna og ungmenna í því sem það tekur þátt, það býr ekki við sömu skilyrði og þar sem allt er byggt upp í topp, og það er líka oft þannig að fólk kemur langan veg að til að taka þátt einmitt í slíku starfi.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur að við eigum að beina þessu og nota þetta fyrir börn og ungmenni, við eigum fyrst og fremst að gera það. Síðan vil ég að lokum þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir orð hennar hér um að hún ætli að standa vörð um þennan merkilega sjóð.