138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrirspurnina. Í tilefni af henni óskuðum við í menntamálaráðuneytinu eftir álitsgerð frá skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem er um margt áhugaverð þar sem farið er yfir stöðu verkefnisins. Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þekkir manna best var gerður samningur um tilraunarekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði. Hún tók til starfa haustið 2007 og er verkefnið áætlað til fjögurra ára þannig að það fer að líða að því að það verði hálfnað. Aðilar að samningnum auk ráðuneytisins eru Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur og Fjölbrautaskóli Snæfellinga.

Í framhaldsdeildinni á Patreksfirði geta nemendur á sunnanverðum Vestfjörðum stundað nám á framhaldsskólastigi. Nám og kennsla byggjast á aðferðum dreifmenntunar þar sem beiting upplýsingatækni er mjög veigamikill þáttur. Nemendur stunda námið í heimabyggð undir eftirliti með aðstoð tveggja kennara sem eru á staðnum. Nemendur í deildinni eru eigi að síður hluti af nemendahópi Fjölbrautaskóla Snæfellinga og námi og kennslu er stýrt af kennurum skólans í gegnum svokallað námsumsjónarkerfi á netinu. Einu sinni í mánuði heimsækja nemendur deildarinnar skólann í Grundarfirði og taka þar þátt í hefðbundinni kennslu og verkefnatímum undir handleiðslu kennara. Yfirleitt eru þá einnig skipulagðar ákveðnar uppákomur í félagslífinu á vegum nemendafélagsins í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og þá býðst nemendum tækifæri til að taka þátt í þeim.

Spurt var um viðtökur íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Þær hafa verið mjög góðar við þessu nýja námstilboði. Að meðaltali hafa 65% brautskráðra grunnskólanemenda á þessu svæði stundað nám í deildinni á Patreksfirði. Nú á haustönn fór hlutfallið í 70% en 16 nemendur hófu þar nám í kjölfar náms í grunnskóla. Í upphafi annar voru 34 nemendur alls skráðir til náms í framhaldsdeildinni á Patreksfirði.

Út frá því sem hér hefur verið sagt tel ég að ráða megi að vel hafi tekist til í þessari starfsemi. Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur staðið vel að kennslunni og íbúar svæðisins hafa tekið nýjum tækifærum til náms opnum örmum. Nú hefur þorri grunnskólanemenda á svæðinu framhaldsnám sitt í deildinni.

Út frá því sem hér var sagt, um hvort þetta sé eitthvað sem við getum almennt lært af um land allt, þá held ég að það sé mjög góður punktur hjá hv. þingmanni og reyndar er þetta mjög í anda þess sem ég og fleiri þingmenn Vinstri grænna höfum talað fyrir, þ.e. að reyna að tryggja nám í heimabyggð a.m.k. til 18 ára aldurs. Mér finnst þessi reynsla af samstarfi heimamanna á sunnanverðum Vestfjörðum og Fjölbrautaskóla Snæfellinga geta reynst góð fyrirmynd að fyrirkomulagi náms í heimabyggð. Við höfðum hliðsjón af þessari reynslu þegar svipaðri þjónustu var komið á fyrir nemendur á Þórshöfn á Langanesi nú í haust. Fagleg ábyrgð á náminu þar er í höndum framhaldsskólans á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu og nemendur á Þórshöfn sækja inn til Lauga einu sinni í mánuði á svipaðan hátt. Þetta virðist líka ætla að mæta mjög góðum viðtökum á Þórshöfn. Ég vonast til þess að við getum séð fleiri slík „módel“ ef svo má að orði komast. Ég minni líka á að nú er komin á framhaldsdeild í Fjallabyggð, Ólafsfirði og Siglufirði.

Það er mjög mikilvægt að við reynum að læra dálítið af þessu, hvernig hlutirnir eru gerðir ólíkt á þessum stöðum, hvernig þeir eru gerðir líkt og hvernig við getum nýtt okkur það. Það er vissulega rétt sem hv. fyrirspyrjandi bendir á að þetta tryggir lengri samveru fjölskyldunnar — það er ekkert smámál að senda frá sér nemendur sína, börnin sín, þegar þeir eru 16 ára í nám í heimavist. Nú getur fjölskyldan búið lengur saman. Ég held að það skipti mjög miklu fyrir lífsgæði, ekki bara fjölskyldunnar heldur er það líka mikilvægt fyrir byggðarlögin að fjölskyldurnar haldi sig heima. Því miður er það oft þannig að þegar börnin fara að heiman þá flytur fjölskyldan með þeim. Þetta getur spilað inn í.

Þetta getur líka skipt máli út frá hinum hagrænu forsendum því að við eyðum t.d. umtalsverðum fjármunum í jöfnunarsjóð námsmanna. Þetta dregur að sama skapi úr útgjöldum úr þeim sjóði og þetta bæði tryggir byggðarlög og eykur möguleikana á því að nemendur séu lengur heima við.

Ég er mjög áhugasöm um að við lærum af þessu, að við gerum nánari úttekt á því hvernig til hefur tekist. Við skynjum það að reynslan er góð, það er ánægja með starfið. Við könnum það þótt það kosti fjármuni til lengri tíma hvernig við getum sem best byggt upp nám út frá þeim fyrirmyndum sem við nú höfum til að vinna eftir í hinum dreifðu byggðum.