138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er þörf umræða. Ég vil hins vegar taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að þróun fjarkennslu og dreifnáms í dreifbýli sé fyrst og fremst valkostur. Það er byggðasjónarmið að gefa nemendum og ungu fólki kost á því að stunda nám í heimabyggð. Aðgengi að námi í heimabyggð hefur áhrif í samfélögum, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur bent á. Það er dýrt að senda nemendur í önnur byggðarlög, það er oft og tíðum erfitt fyrir þau. En það er mikilvægt þegar reynslan af þessu fyrirkomulagi er metin — þetta fyrirkomulag leggur stjórnendum skóla verulega ábyrgð á herðar, að skipuleggja námið vel. Það þarf að fylgjast mjög vel með framkvæmdinni á verkefni eins og þessu, gera óháðar reglulegar úttektir á því hvernig til tekst og fylgjast með afdrifum nemenda, t.d. í háskólanámi, þegar úr þessu námi er komið. Ég mundi halda (Forseti hringir.) að reynslan af þessu fyrirkomulagi væri ekki orðin ljós að svo stöddu, en það er mjög brýnt að hún verði metin. Ég tek undir það að ég held að þetta gefi góðar vonir sem valkostur og möguleiki í menntamálum.