138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þegar verkefnið á Þórshöfn var samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar — og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á hrós skilið fyrir þá ákvörðun — var það kannski eitt sem réð úrslitum. Þegar þeir á Þórshöfn voru að vinna þessu máli fylgi gerðu þeir skýrslu um ástæður þess að fólk flutti af Þórshöfn. Það var mjög sláandi niðurstaða. Það kom í ljós að langflestir þeirra sem fóru frá Þórshöfn voru að fylgja börnum sínum sem voru að fara í framhaldsskóla. Þetta er reynslan. Foreldrarnir fylgja sínum ófiðruðu ungum þegar þeir staulast úr hreiðrinu til skóla. Það er einfaldlega ekki hægt annað í nútímasamfélagi en reyna að feta þessa braut áfram. Þetta skiptir svo miklu máli og ekki bara fyrir velferð byggðarlaganna heldur líka fyrir velferð fjölskyldnanna.

Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að stuðla áfram að þessari þróun eins og hún best getur.