138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem er hér um þessi mál. Ég tel ljóst að þróunin á framhaldsskólastiginu verði í þessa átt, þ.e. að framhaldsskólarnir verði fleiri og smærri og verði nær fólkinu ef svo má segja. Ég hvet til þess að tekið verði mið af þeirri góðu reynslu sem er víða, bæði við Eyjafjörð og sunnanverða Vestfirði.

Þegar við þróum þessi mál áfram þarf að hafa í huga að þessi þróun komi ekki niður á t.d. verknámi. Það þarf að hafa námsframboð í huga og námsval nemenda og að þróunin verði ekki til þess að stýra nemendum enn frekar í bóknám svo að það sé sagt hér.