138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún skiptir miklu máli. Ég held að það sem hefur komið hér fram sé mjög mikilvægt innlegg í heildarstefnumótunina sem ég tel að við þurfum að vinna og vona að við náum að sameinast um. Að mínu mati er ljóst að ábyrgð ríkisvaldsins er mikil í þessa veru. Það liggja fyrir raunhæfar tillögur sveitarfélaganna og það sem einmitt gerðist varðandi bæði Vesturbyggð og Tálknafjörð annars vegar og hins vegar Þórshöfn og varð til þess að fyrri ríkisstjórnir ákváðu þetta var einmitt að grunnurinn var svo vel unninn. Við sáum ákveðna tölu. Við sáum hættuna á því að fólk, eins og hæstv. utanríkisráðherra benti hér á, flytti frá landsbyggðinni á þá staði þar sem þessir kjarnaskólar eru.

Ég hins vegar tek undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að við þurfum að gæta okkar á ákveðnum þáttum. Við þurfum að passa upp á verknámið og átta okkur á því að eftir sem áður verða að vera sterkar einingar sem geta þjónustað. Við vorum í safnaumræðu hér áðan varðandi höfuðsöfnin. Við viljum að ákveðnir kjarnar séu sterkir en það er hægt að miðla bæði ákveðnum munum og námi víðar um landið.

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að halda áfram með þetta verkefni því meginmarkmið okkar, eins og ég gat um áðan, er að efla og auka aðgengi barnanna okkar að námi. Þá verður að skoða allar leiðir. Ég tek líka undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, ég er sannfærð um að ef við gerum þetta markvisst, byggjum þetta á reynslu, sjáum tölurnar sem liggja fyrir og gerum þetta af ábyrgð í samvinnu við sveitarfélögin, muni þetta vera ódýrari leið fyrir samfélagið í heild en það sem oft og tíðum er boðið upp á í dag. Ég vil hvetja hæstv. menntamálaráðherra til dáða og þakka um leið fyrir svörin.