138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framlög til menningarmála.

134. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það vill svo til að ég hef vitneskju um að á síðasta ári var unnin skýrsla fyrir ráðuneytið varðandi framlög til menningarmála. Oft og tíðum hefur verið mikil umræða meðal listamanna, menningarunnenda og hér inni hvort framlög til menningarmála séu nægileg, hvort eigi að auka við þau eða skera niður. Ég veit að þessi skýrsla var gerð. Hún var kynnt fyrir mér á sínum tíma þegar ég var ráðherra en þá var stutt eftir af þeirri ráðherratíð þannig að ekki náðist að vinna frekar úr henni. Ég tel mikilvægt að við fáum fram þær upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslunni varðandi alla frekari umræðu um menningarmál. Menn hafa verið að draga hér inn fjárlagafrumvarpið og umræðu tengda því og þá er mikilvægt að menn átti sig á þeirri þróun sem hefur verið á framlögum til menningarmála.

Við sjáum nú þegar strax ákveðnar áherslur af hálfu mennta- og menningarmálaráðherra varðandi kvikmyndamálin. Hún hefur komið fram með sínar útskýringar og við munum fara yfir það síðar í vetur í þinginu.

Ég tel mikilvægt að þetta verði dregið fram til að við áttum okkur á heildarútgjöldum til menningarmála. Mín sannfæring og tilfinning er að við höfum bætt í. Það má alltaf deila um hvort það megi vera meira en fyrst og fremst tel ég að við sjáum menningarlíf okkar blómstra nú sem aldrei fyrr, hvort sem er litið til bókmennta eða ritlistar, af því að hér eru frómir rithöfundar innan dyra og gagnrýnendur líka. Hér rétta margir upp hönd en sá sem ég er með í huga stendur í næsta herbergi. Við sjáum líka kvikmyndagerðina, það er engin tilviljun að innlend dagskrárgerð og sjónvarpsþættir blómstra nú sem aldrei fyrr. Þetta eru góðir þættir, allir hafa sínar skoðanir á Hamrinum , hvað þá Fangavaktinni o.s.frv.

Ég held að með því að hlúa að menningarmálum sjáum við samfélagið okkar styrkjast. Á erfiðum tímum eins og við höfum upplifað núna sl. ár skiptir miklu máli að hugað sé að þessum þáttum. Það er ósköp auðvelt að gagnrýna hvar er skorið niður og hvar bætt í en ég tel mikilvægt að við sem höfum metnað fyrir hönd menningar okkar og lista áttum okkur á því hvernig staða þessara mála er í ríkisfjármálunum og hvernig hún muni líta út því við viljum að þessi gróska haldi áfram. Við viljum að það verði haldið áfram í þeirri sókn sem við höfum staðið fyrir á sviði menningarmála á mörgum sviðum og margir eiga þakkir skildar hvað það varðar.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hver er niðurstaða skýrslu sem gerð var á síðasta ári fyrir ráðuneytið um þróun framlaga til menningarmála? Ég vona að í kjölfarið getum við síðan átt vitræna umræðu um hvernig við getum staðið vörð um okkar menningu.