138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framlög til menningarmála.

134. mál
[15:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa fyrirspurn. Það er rétt að menntamálaráðuneytið lét vinna skýrslu á síðasta ári um þróun útgjalda hins opinbera til menningarmála á árabilinu 1998–2007. Í skýrslunni var notuð sú sundurliðun og skilgreining á menningarútgjöldum sem Hagstofa Íslands beitir enda er sú aðferðafræði sú sama og beitt er í alþjóðlegri hagskýrslugerð.

Helstu niðurstöður hennar eru að mikil raunaukning varð í framlögum hins opinbera til menningarmála á þessum árum þegar framlögin eru metin á föstu verði. Framlög ríkisins jukust um tæplega 100% og einstakir liðir um allt að 230% en örðugt er að meta með góðu móti samsvarandi aukningu hjá sveitarfélögum á tímabilinu vegna breyttra reikningsskilareglna sem voru teknar upp árið 2002. Raunaukningin milli 1998 og 2001 var þó 28% og aukningin frá 2002–2007 nam um 41%. Ef við tökum tölurnar eins og þær liggja fyrir frá 1998–2007 var aukning sveitarfélaganna 85%.

Ef útgjöld hins opinbera á föstu verði frá árinu 2002 eru tekin sést að aukningin hefur numið alls 52%. Þessi aukning er eins og áður hefur verið sagt langt umfram vöxt vergrar landsframleiðslu eða mannfjöldaaukningu á þessum tíma. Hjá ríkinu hafa útgjöld á mann aukist um 76,5% milli 1998 og 2007, sem skiptist þannig að raunútgjöld á mann jukust um 17% á árunum 1998–2002 og 35% frá 2003–2007. Útgjöld sveitarfélaga á mann jukust um 31% frá 2002–2007. Því má segja að útgjöld hins opinbera til menningarmála hafi aukist verulega í raun á síðustu 10 árum sem þessi athugun nær til, hvort sem metið er á grundvelli heildarútgjalda á föstu verði eða sem útgjöld á mann á föstu verðlagi. Vona ég nú að allar þessar prósentutölur hafi komist til skila.

Útgjöld til menningarmála skiptast í meginatriðum hjá ríki og sveitarfélögum í fjóra flokka, þ.e. söfn, sem eru langstærsti undirflokkurinn og reyndar skilst mér að við eigum a.m.k. Evrópumet ef ekki heimsmet í söfnum á hvern íbúa, listir, aðra menningarstarfsemi og styrki til menningarmála og safnlið sem er ósundurliðaður. Allmikið samræmi er í hlutfallsskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga sem verður að teljast jákvætt þar sem þá eru meiri líkur á samnýtingu og minni hætta á of mikilli dreifingu framlaga á marga málaflokka.

Ef við lítum á útgjöld til menningarmála og metum þau sem hlutfall af vergri landsframleiðslu kemur í ljós að hlutfallið hefur verið a.m.k. 0,93% að jafnaði seinustu þrjú ár. Ekki eru verulegar sveiflur í þessu hlutfalli frá árinu 2003. Hlutfallsleg skipting útgjalda milli ríkis og sveitarfélaga er næsta jöfn á seinustu árum, þótt greina megi að sveitarfélögin hafi frekar verið að sækja á í þeim samanburði.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að þetta sé skýr vottur þess að bæði ríki og sveitarfélög hafi haft þá stefnumörkun uppi að auka veg menningar og lista þannig að við sjáum skýra raunaukningu til málaflokksins, svo ég reyni að draga þetta saman, hvort sem við lítum á það hjá ríki eða sveitarfélögum eða berum það saman við mannfjöldaaukningu. Eigi að síður hefur hlutfallið á fjárlögum ekki aukist miðað við aðra málaflokka. Það er kannski umhugsunarefni því útgjöld hafa auðvitað almennt vaxið og hlutfallið hefur verið u.þ.b. 0,93% að jafnaði síðustu þrjú ár. Þá liggur þetta fyrir.

Ég vil að lokum segja að það er hárrétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að menningarlíf blómstrar. Eitt af því sem mér skilst frá þeim sem þekkja best til í menningarlífinu, án þess að ég hafi um það skýrar tölur, er að aðsókn hafi aukist á ýmsa menningarviðburði eftir efnahagshrunið og má þar nefna bæði leikhús og tónleika og annað slíkt. Þjóðin sækir í menningu. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt því við þurfum ekki bara líkamlegt fóður, við þurfum sálarfóður og þess vegna skiptir máli að standa vörð um menningu. Oft og tíðum þegar rætt er um niðurskurð er litið á menningu sem eitthvað sem megi sleppa og sé ekki hluti af grunnþjónustunni. Ég held hins vegar að æ fleiri komist á þá skoðun að menning sé ein af grunnstoðum hvers samfélags. Það hlýtur því að skipta ótrúlega miklu máli hvort sem við byggjum upp smærri eða stærri samfélög að menning sé hluti af samfélaginu. Við sjáum það t.d. í hinum smærri samfélögum um allt land. Þau leggja gríðarlega áherslu á að byggja upp menningarlíf, hreinlega til þess að geta staðið undir nafni sem virkt samfélag. Ég held að þetta skipti líka miklu máli þegar við horfum á Ísland sem heild, menningin skiptir gríðarlegu máli fyrir okkar samfélagsvitund.