138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Aðild að Evrópusambandinu er hjartans máls hjá Samfylkingunni og í raun hennar eina stefnumál eins og er vitað. Í sumar var samþykkt á Alþingi að Ísland skyldi stíga það skref að leggja inn aðildarumsókn að ESB og við stöndum nú frammi fyrir þeirri staðreynd, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Undrast margir hversu vel er í lagt, en ég minni á að áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna umsóknarinnar eru einn milljarður — já, ég endurtek: þúsund milljónir.

Frú forseti. Það væri hægt að gera ýmislegt fyrir heimili landsins fyrir þúsund milljónir en svona eru áherslurnar hjá ríkisstjórninni. Skattarnir eru hækkaðir, ríkissjóður skuldsettur sem aldrei fyrr eins og enginn sé morgundagurinn og heimili landsins fá enga hjálp.

Erlend matsfyrirtæki hafa líka bent á þann ömurlega árangur sem ríkisstjórnin hefur sýnt í viðleitni sinni til að stjórna landinu og gerðist það síðast í morgun. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra lýst því yfir að hann ætli sér að slá hraðamet inn í ESB með þjóðinni eða án. Hvers vegna veit enginn, en sá grunur læðist að efasemdarmönnum ESB að staðan hér á landi sé langtum verri en ríkisstjórnin gefur upp og í raun sjái ríkisstjórnin ekki annað út úr augunum en að innlima Ísland í Evrópusambandið og sé í raun og veru málefnalega gjaldþrota og sjái ekki aðra lausn.

Inngöngu og umsókn að Evrópusambandinu fylgja vissulega fórnir. Þær fórnir eru vissulega sýnilegar og vitaðar því að talsmenn Evrópusambandsins hafa lýst því yfir að sambandið ásælist auðlindir okkar, þetta er ekki leyndarmál, og sérstaklega stöðu Íslands á landakorti heimsins til að tryggja hagsmuni Evrópusambandsins yfir hagsmunum á norðurslóð. Þetta eru staðreyndir, frú forseti, og engar dylgjur. Þessi hraði undrar mig, þessi hraði slær mig óhug svo ekki sé meira sagt og marga Íslendinga líka. Hæstv. utanríkisráðherra fer fram með gassagangi. Hann var ekki fyrr búinn að fá heimildina frá Alþingi um að leggja inn aðildarumsókn en að hér var allt sett á fulla ferð.

Stjórnarþingmaður sagði um daginn á nefndarfundi að sá kostnaður sem af umsókn hlytist skipti ekki nokkru máli því að Evrópusambandið mundi hvort sem er borga þetta allt. Því hef ég ákveðið að leggja fram fyrirspurn í þinginu í þremur liðum og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Fær Ísland styrki frá Evrópusambandi sem umsóknarríki og ef svo er, hversu háir eru þeir?

2. Veitir Evrópusambandið lán til ríkja sem eru umsóknarríki?

3. Veitir Evrópusambandið fjármagn til „já“-hreyfinga umsóknarríkja og ef svo er, hversu mikið?

Ég vonast eftir hreinskilnum svörum frá hæstv. utanríkisráðherra og óska ég eftir því að hann svari öllum þessum spurningum.