138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér er alltaf ánægjuefni að eiga orðastað við hv. þingmann sem hefur sýnt þingmanna mestan áhuga og stundum þekkingu á Evrópusambandinu. Við verðum samt að ræða þetta á málefnalegum grunni. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég hafi einhvern tímann sagt það að við ætluðum að slá hraðamet við að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það eru ekki mín orð. Það eru annarra orð. Hv. þingmaður hefur væntanlega lesið það í leiðara Morgunblaðsins. Þar las ég þetta. Þetta voru orð sem höfð eru, eina skiptið sem ég þekki það, eftir finnskum utanríkisráðherra, en það er nú önnur saga.

Hv. þingmaður spyr um hvort Ísland fái styrki frá Evrópusambandinu sem umsóknarríki. Staðreyndin er sú að það er sérstakur sjóður sem ESB starfrækir sem er ætlaður til þess að aðstoða ríki sem hafa sótt um aðild eða hafa stöðu umsóknarríkis við það að undirbúa hugsanlega aðild sína. Þetta er það sem heitir IPA, eða með leyfi forseta, Instrument of Pre-Accession. Ég hef sagt það áður að hjá Evrópusambandinu er núna til meðferðar tillaga um að Íslandi verði bætt á lista yfir þau ríki sem gætu notið stuðnings úr honum. Þessi stuðningur gæti verið annars vegar í formi sérfræðiaðstoðar, m.a. innan stjórnsýslunnar eða til funda og ráðstefnuhalds. Þetta er innan sérstakrar leiðar sem ber það merkilega heiti TAIEX, en hins vegar gæti líka verið um að ræða bein fjárframlög til afmarkaðra verkefna en það krefst hins vegar mótframlaga af Íslands hálfu.

Ég get ekki upplýst hv. þingmann um það hversu miklar fjárhæðir gæti þarna verið um að ræða. Ísland er ekki komið á þennan lista en gert er ráð fyrir því að þetta verði upplýst og komi fram einhvern tímann á fyrri hluta næsta árs og þá mun fróðleiksþorsta hv. þingmanns að þessu leyti verða svarað.

Ég segi líka hv. þingmanni frá því, af því að ég vil bara vera ærlegur við hana, að hingað hafa komið sendimenn frá Brussel í heimsókn til að ræða þetta sérstaklega. Ég hef átt viðtöl t.d. og samtöl við næsta undirmann stækkunarstjórans Olli Rehn um þetta. Ef hv. þingmaður, sem örugglega þekkir gang málsins miklu betur en ég, mundi skoða t.d. hvernig gekk hjá Möltu, það er þjóð af svipaðri stærð, gæti hún kannski gert sér í hugarlund hvaða upphæðir þetta eru.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis um hvort Evrópusambandið veiti lán til ríkja sem eru umsóknarríki. Það er kannski ekki hægt að svara þessu beinlínis jákvætt, en hins vegar hefur Evrópusambandið komið á fót sérstöku fyrirkomulagi sem heimilar sambandinu að styðja við ríki sem eru utan þess að ákveðnum efnahagslegum skilyrðum uppfylltum, en þessi stuðningur er hins vegar ekki bundinn við það að ríki hafi stöðu umsóknarríkis, heldur nægir að um sé að ræða náið samband á milli ESB og viðkomandi ríkis. Stuðningur samkvæmt þessari leið sem, með leyfi forseta, heitir á máli þeirra Macro-financial assistance eða MFA. Hann er í formi lána sem ESB veitir en tekur sjálft á markaði og lánar síðan viðkomandi ríki á sambærilegum kjörum. Þetta hefur yfirleitt verið gert í tengslum við einhvers konar fjárhagsaðstoð eða liðsinni við ríki sem eiga í erfiðleikum, yfirleitt, nánast alltaf, í tengslum við samkomulag sem viðkomandi ríki hafa gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og af því að ég veit að hv. þingmaður fylgist ákaflega vel með, veit hún það örugglega eins og ég að núna eru t.d. fyrirliggjandi tillögur um stuðning af þessu tagi við Serbíu, Bosníu, auk þess sem Króatía hefur líka notið stuðnings af þessu tagi. Hv. þingmaður veit það örugglega líka því að hún hefur kynnt sér feril Evrópusambandsins svo vel að svipaður stuðningur var áður veittur ýmsum ríkjum á Balkanskaga og sum núverandi aðildarríki nutu góðs af þessu, eins og t.d. Ungverjaland sem fékk lán á ákaflega góðum kjörum ekki alls fyrir löngu.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort Evrópusambandið veiti fjármagn til „já“-hreyfinga umsóknarríkja og ef svo er hversu mikið. Nú er Evrópusambandinu öðruvísi farið en ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Íslands mun veita styrki eins og fram hefur komið, bæði til já- og nei-hreyfinga, en mér er ekki kunnugt um að þeir í Brussel, örlátir sem þeir eru, hafi veitt styrki til já-hreyfinga eða nei-hreyfinga. Reyndar er það svo að ég hef spurt eftir því stundum sérstaklega í viðræðum við kollega mína frá ýmsum ríkjum, t.d. Króata, og þar var það ekki gert.