138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir að taka þetta mál hér upp í dag. Ég má til með að vekja máls á því hér í upphafi að þessi umsókn er ekki í mínu umboði. Það er einmitt að koma á daginn að kostnaðurinn er varlega áætlaður þúsund milljónir í þessa umsókn og menn eru ekki almennt eins jákvæðir fyrir þessu þegar verið er að horfa á þann niðurskurð sem nú liggur fyrir. Við vorum hér að ræða áðan um ferðasjóð ÍSÍ og niðurskurð upp á þrjár milljónir. Andstaðan við þetta er að aukast. Andstaðan við Evrópusambandið er að ná því sem hún var fyrir hrun og hefur verið hér mörg ár á undan. Það er enginn meiri hluti fyrir Evrópusambandsumsókn á þingi, það er enginn meiri hluti fyrir Evrópusambandsumsókn meðal þjóðarinnar og ekkert útlit fyrir að það breytist. Það væri því eðlilegt að draga þessa umsókn til baka.

Eina vonin til þess að þetta breytist er að Evrópusambandið dæli hingað fjármunum og auglýsi þetta upp. Eins og ég benti á í ræðu (Forseti hringir.) við þetta mál í þinginu veitir Evrópusambandið 600–700 milljarða (Forseti hringir.) í auglýsingar á hverju einasta ári í að auglýsa eigið ágæti.