138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu. Ég mundi nú vilja fá að gera athugasemd við ummæli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, þess efnis að kalla Framsóknarflokkinn Evrópuflokk. Það er grundvallarmunur á stefnu Samfylkingar og Framsóknarflokksins varðandi aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin er náttúrlega fylgjandi, Framsóknarflokkurinn lýsti því hins vegar yfir að hann vildi sækja um aðildina, ekki að hann mundi vilja ganga inn.

Ég mundi hins vegar vilja taka undir áhyggjur manna af því hvað þessari umsókn líður. Þegar hörðustu stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar eru farnir að lýsa því yfir að þeir telji litlar líkur á því að íslenska þjóðin muni samþykkja aðildarsamning — þar á meðal eru Jón Baldvin Hannibalsson og Andrés Pétursson, sem er í forsvari fyrir já-hreyfingunni hérna á Íslandi — þá er það náttúrlega eitthvað til að hafa áhyggjur af. Ég held að það sé rétt eftir haft hjá mér að frá því mælingar hófust á vegum Samtaka iðnaðarins á viðhorfi íslensku þjóðarinnar til aðildarumsóknar og aðildar hefur aldrei verið jafnmikil neikvæðni og nú mælist. (Forseti hringir.) Hæstv. utanríkisráðherra hlýtur að hafa áhyggjur af þessu. Og það er ekki bara það að hann ætti að hafa áhyggjur af þessu heldur les maður það á Observer að embættismenn í Brussel eru farnir að hafa áhyggjur af þessu.