138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu en mig langar að taka upp þráðinn frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Hann sagði að ekki væri meiri hluti fyrir Evrópusambandsumsókn á þinginu, hvorki hjá þinginu né þjóðinni. Það rifjaðist þá upp fyrir mér að þegar við vorum að greiða atkvæði og höfðum hlustað á þingmenn Vinstri grænna í atkvæðaskýringum varð maður dálítið hissa þegar þeir sögðu já. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að það rifjaðist upp fyrir mér.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra hvort hann hefði ekki talið eðlilegra, eins og margir hafa bent á hér í umræðunni, að við hefðum frestað því um eitt ár að fara í þessa aðildarumsókn. Við hefðum þá getað gefið okkur tíma til að snúa okkur að mikilvægari málum sem snúa að því að endurreisa efnahagslífið og gefa fjölskyldunum og fyrirtækjunum von. Ég vil líka spyrja hann að því hvort honum finnist það vera í takt við þjóðina en það hefur komið fram að 1/3 hluta þjóðarinnar hugnast að ganga þarna inn — hvort ekki væri betra að nota allar þessar milljónir í það að hjálpa heimilunum í landinu.