138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að gangast við mistökum sínum. Ég vil bara segja það við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að hún hefur tilefni til þess að fara þessum orðum um svar mitt í sjónvarpinu. Allir eiga sína erfiðu daga og þetta var vitlaust svar og ekki réttar upplýsingar. Ég biðst velvirðingar á því.

Ég vil segja það við hv. þingmann sem flutti fyrirspurnina að það er enginn sem hefur sagt að íslenska ríkisstjórnin ætli að taka þessi lán. Það eru engin áform um það. Það voru áform um það að notfæra sér þetta á fyrstu mánuðum kreppunnar, þ.e. í tíð fyrri ríkisstjórnar, en ekkert varð úr því. Það var það sem Olli Rhen stækkunarstjóri átti væntanlega við á fyrirlestri sínum í hátíðarsalnum. Það er það eina sem ég kannast við varðandi þessi lán og í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur aldrei verið minnst á að taka þessi lán.

Ég vil þó vekja eftirtekt á því að ég hef ekki komið hingað eða í fjölmiðla til þess að veifa einhverjum sjóðum. Ég hef reynt að hafa málflutning minn varðandi það tiltölulega hljóðbæran. Það er hv. þingmaður sem er að draga fram þessa sjóði og möguleikana sem Íslendingar kunna að eiga í þeim með fyrirspurn sinni. Ég held að ég hafi aldrei nefnt þessa sjóði hér t.d. í ræðum mínum um Evrópusambandið.

Ég held að það sem þeir Íslendingar sem vilja ganga í Evrópusambandið eru á eftir sé allt annað en einhver lán af þessu tagi. Menn telja að það búi Íslandi traustara umhverfi að ganga inn. Sérstaklega er það eitt sem vakir fyrir mönnum, möguleikinn á að skipta um gjaldmiðil. Það eru mjög margir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem eru sammála því. Menn greinir hins vegar á um það hvort það eigi að vera evra, sumir tala um dollara, sumir jafnvel um norska krónu. En því miður hefur reynslan sýnt okkur að eitt af því sem er mikilvægast fyrir okkur inn í framtíðina er að taka ákvörðun um það með hvaða hætti við eigum að haga gjaldmiðilsmálum okkar í framtíðinni.