138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sendiherra Bandaríkjanna.

160. mál
[18:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hætta á það að vera uppnefnd hér með því að leyfa mér að gera smá athugasemd við málflutning hæstv. ráðherra, sem virðist vera aftur eiga við það vandamál að etja að dagurinn er honum eitthvað slæmur. Hann baðst nú afsökunar á því fyrr í dag og ég held að við getum búist við annarri afsökunarbeiðni í síðari ræðu hæstv. ráðherra.

Mér finnst dæmalaust merkilegt að þegar ráðherrar í þessari ágætu ríkisstjórn eru spurðir einfaldra spurninga, það skiptir ekki máli um hvað er verið að tala, er í fyrsta lagi alltaf farið til baka og einhvern veginn verður allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Hér var spurt um ákvörðun sem tekin var löngu eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hætti að hafa afskipti af þessum málum. En síðan vil ég, vegna þess að hæstv. ráðherra blandaði hér í umræðuna varnarviðræðunum sem ég tók þátt í, að Carol von Voorst, hinn ágæti fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna (Forseti hringir.) sem hér hefur verið til umræðu, var ekki hér til að græða einhver sár sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði skilið eftir. Hún var þátttakandi í því viðfangsefni (Forseti hringir.) sem við stóðum frammi fyrir þegar Bandaríkjastjórn, ekki Sjálfstæðisflokkurinn, ákvað að draga herlið sitt til baka. (Forseti hringir.) Carol von Voorst sendiherra átti í mjög góðum samskiptum (Forseti hringir.) og samstarfi við (Forseti hringir.) fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma.